Nýjum innanríkisráðherra ætlað að glíma við glæpagengi

José Jerí, nýr forseti Perú, hefur útnefnt rúmlega sextugan hershöfðingja á eftirlaunum innanríkisráðherra. Vicente Tiburcio hefur þótt harður í horn að taka og hlutverk hans er að leiða baráttu forsetans gegn glæpum í landinu. José Jerí tók við embætti í síðustu viku eftir að nær gjörvallur þingheimur ákvað að víkja Dinu Boluarte forseta frá og tilkynnti nítján manna ráðuneyti sitt í gær. Þar verða fjórar konur meðal ráðherra og Ernesto Alvarez, fyrrverandi yfirdómari við stjórnlagadómstól, fer fyrir stjórninni. Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að Vicente Tiburcio hafi orðið fyrir valinu sem innanríkisráðherra vegna reynslu hans af baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi, eiturlyfjasölu og hryðjuverk. Hann leiddi baráttuna gegn hryðjuverkasamtökunum Skínandi stíg, sem hófst í forsetatíð Albertos Fujimoris á 10. áratug liðinnar aldar. Jerí forseti hefur heitið að takast á við glæpi á borð við fjárkúganir og morð sem hafa skekið Perú undanfarin ár. Jerí forseti varaði fangelsaða foringja glæpagengja í gær við miklum breytingum og alvarlegum afleiðingum haldi þeir áfram að ógna innanlandsfriði úr klefum sínum. Boðað hefur verið til forsetakosninga í Perú á komandi ári, þegar kjörtímabili Dinu Boluarte á að ljúka. Hún sætir fjölmörgum rannsóknum fyrir meinta spillingu og misbeitingu valds. Hún var um tíma einhver óvinsælasti leiðtogi heims og naut aðeins hylli tveggja til fjögurra prósenta landsmanna í skoðanakönnunum. Sjö forsetar hafa setið að völdum í Perú síðustu níu ár og þingið vék þremur þeirra úr embætti.