Allt tiltækt lið Brunavarna Suðurnesja glímir við talsverðan eld sem logar í iðnaðarhúsnæði við Klettatröð á Ásbrú. Þar er Köfunarþjónusta Sigurðar til húsa. Að sögn varðstjóra var kallaður út aukamannskapur og því er á þriðja tug slökkviliðsmanna á staðnum. Varðstjórinn segir liðið hafa komið þangað laust fyrir klukkan sex og slökkvistarf því nýhafið. Hann segir ekki talið að nokkur hafi verið í húsinu og því eigi enginn að vera í hættu.