Nokkrar breytingar hafa orðið á íslenska landsliðshópnum síðustu mánuði. Eldri leikmenn hafa lagt skóna á hilluna og svo eru tvær barnshafandi. „Við erum allar að kynnast betur og þetta er bara búið að vera mjög skemmtilegt,“ sagði Sandra á landsliðsæfingu í Úlfarsárdal í gær. Hún segir þó að með þessum breytingum fylgi skemmtilegar áskoranir. „Jú algjörlega. Við hérna sem vorum í miðjunni hálfgerðar pönnukökur erum allt í einu orðnar þær eldri og komnar í meiri ábyrgðarhlutverk sem er bara mjög skemmtilegt. Þó við söknum eldri leikmannana sem voru að hætta auðvitað líka,“ sagði Sandra. Og það er mikilvægt að byrja undankeppnina vel og vinna Færeyjar í kvöld. „Það er bara ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að byggja upp sjálfstraust í liðinu og fyrir HM í desember,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir.