Skagamenn vilja skoða sameiningu við Hvalfjarðarsveit

Bæjarstjórn Akraness hefur í annað skipti á sex árum lýst áhuga á að ræða sameiningu við nágranna sína í Hvalfjarðarsveit. Síðast þegar það gerðist varð ekkert af því. Á fundi bæjarstjórnar í gær var samþykkt bæjarráðs um að leita samstarfs við Hvalfjarðarsveit staðfest. Bæjarráð lagði til að Akraneskaupstaður sendi sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar formlegt erindi um að sveitarfélögin myndi stýrihóp sem greini kosti og galla við sameiningu sveitarfélaganna. Í fundargerð var bókað að til hliðsjónar skyldi meðal annars hafa áform stjórnvalda um „breytingar varðandi samvinnu sveitarfélaga þar sem stefnt sé að því að tryggja skýrari reglur um kostnaðarskiptinu sem byggi á raunkostnaði við starfsemi í hvoru/hverju sveitarfélagi fyrir sig og heimild sveitarfélags sem sinnir verkefnum fyrir annað sveitarfélag til að reikna sérstakt álag vegna veittrar þjónustu“. Akraneskaupstaður og Hvalfjarðarsveit hafa haft með sér mikið samstarf. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, kveikti nýlega umræðu um þessi mál þegar hann gagnrýndi verkaskiptingu milli sveitarfélaganna. Þá sagði hann tíma til kominn að Akraneskaupstaður verði hagsmuni sína þar sem bærinn tæki að sér margvíslega þjónustu fyrir nágrannasveitarfélagið sem hefði engan áhuga á sameiningu. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar lýsti yfir vonbrigðum með skrif Vilhjálms og sagði samstarfið til bóta fyrir bæði sveitarfélögin. „Í upphafi er rétt að árétta að Hvalfjarðarsveit hefur engan ásetning eða vilja til þess að vera ómagi eða þiggja ölmusu af Akraneskaupstað.“ Akraneskaupstaður keypti fyrir nokkrum árum land í Hvalfjarðarsveit og lýsti þá áhuga á að breyta mörkum sveitarfélaganna til að geta skipulagt þar nýja íbúabyggð. Því höfnuðu nágrannarnir í Hvalfjarðarsveit. Tilraunir Skagamanna nú og fyrir sex árum eru ekki þær einu sem þeir hafa gert til sameiningar. 2013 óskuðu þeir viðræðna um mögulega sameiningu Akraness, Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar. Fyrr á þessu ári sameinuðust tvö síðastnefndu sveitarfélögin.