Ekki tilefni til gæsluvarðhalds eftir „lífshættulega atlögu“ í Kópavogi

Karlmaður var handtekinn um helgina eftir lífshættulega atlögu gegn öðrum manni miðsvæðis í Kópavogi. Aðdragandi hennar var ágreiningur milli þeirra þar sem hinn handtekni réðist á hinn með hnífi. Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild lögreglu. Báðir menn voru fluttir á bráðamóttöku Landspítalans með áverka á sunnudagskvöld. Enginn særðist lífshættulega en sá sem varð fyrir hnífaárásinni hlaut alvarlega áverka á andliti og búk. Atlagan er skilgreind lífshættuleg vegna þess að hnífi var beitt. Sá sem beitti hnífnum var handtekinn. Ævar Pálmi sagði að ekki hefði verið tilefni til að úrskurða hann í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna né rannsóknarhagsmuna.