Draumur að vera í atvinnumennsku en er búinn að sakna lambakjötsins

Liðin mættust í fyrstu umferð riðlakeppni Evrópudeildar karla í handbolta í gær. Þetta er annað árið í röð sem Porto mætir íslensku liði í keppninni og það kann Þorsteinn Leó vel að meta. „Það er alltaf mjög gott að koma til Íslands og hitta fjölskylduna. Vonandi heldur það áfram að við fáum íslenskt lið.“ Þorsteinn Leó hefur nú verið í atvinnumennsku í tvö ár. Hann er ánægður með lífið í atvinnumennskunni og segist hafa vaxið sem handboltamaður að undanförnu. „Ég finn að ég er orðinn sterkari. Mér finnst ég bara vera orðinn betri í handbolta. Ég er búinn að spila fínt. Það er ótrúlega gaman að vera atvinnumaður. Þetta er algjör draumur.“ Þótt lífið sé gott í Portúgal hefur hann saknað lambakjötsins. „Mig hefur langað í lambakjöt ótrúlega lengi og við fengum ótrúlega gott lambakjöt á hótelinu. Ég er mjög sáttur við það.“ Landsliðsmaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson og liðsfélagar hans í Porto lögðu Fram í Úlfarsárdalnum í gær. Þorsteinn Leó er ánægður með að félagslið hans hafi annað árið í röð verið dregið í riðil með íslensku liði. Þá hafi hann saknað lambakjötsins. Sannfærður um að Fram komi sterkari til baka úr Evrópukeppninni Erlendur Guðmundsson leikmaður Fram segir það hafa verið erfitt að kljást við líkamlega sterkt lið Porto í gærkvöld. „Eins og sést þá eru þeir stórir, sterkir og stæðilegir og við kannski ekki með sömu hæð og þyngd. En það var ótrúlega gaman að fá að upplifa þetta.“ Þá segir hann viðureignina gegn Porto talsvert frábrugna því sem þekkist í Olísdeildinni. Fram hefur átt í nokkrum erfiðleikum í deildinni nú í upphafi tímabils en Erlendur er viss um að Evrópukeppnin muni styrkja liðið. „Evrópukeppnin mun gefa okkur fáránlega mikið. Þetta verður rosalega strembið núna fram að jólum en ég held að eftir þetta munum við koma sterkari til baka og bara betra lið.“ Erlendur átti afmæli í gær og segir daginn hafa verið góðan þrátt fyrir tapið. „Þetta var geggjaður afmælisdagur, tólf marka tap var reyndar ekki frábært en ég er búinn að eiga góðan dag.“ Landsliðsmaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson og liðsfélagar hans í Porto lögðu Fram í Úlfarsárdalnum í gær. Þorsteinn Leó er ánægður með að félagslið hans hafi annað árið í röð verið dregið í riðil með íslensku liði. Þá hafi hann saknað lambakjötsins.