Ég er ekki hættu­leg – ég er veik

Ég er greind með jaðarpersónuleikaröskun, eða borderline personality disorder (BPD) eins og það er kallað á ensku. Það er röskun sem margir skilja ekki, jafnvel innan heilbrigðiskerfisins sjálfs. Hún snýst ekki um að vera „erfið“ eða „óútreiknanleg“ manneskja, heldur um það að lifa með tilfinningar sem eru svo sterkar að þær taka stundum völdin af mér. Þær valda óöryggi, kvíða, vonleysi og hræðslu við að vera yfirgefin. Þær láta mig bregðast harkalega við hlutum sem aðrir gætu tekið rólega – ekki af illvilja, heldur af sársauka.