Arion banki telur vaxtadóminn hafa lítil áhrif á sig

Stjórnendur Arion banka telja að áhrif vaxtadóms Íslandsbanka á bankann verði óveruleg. Dómurinn var sá fyrsti af fjórum í sambærilegum málum sem Neytendasamtökin og lántakar höfðuðu gegn bönkunum. Í tilkynningu Arion banka til Kauphallarinnar segir að skilmálar íbúðalána bankans séu frábrugðnir þeim sem Hæstiréttur dæmdi í gær ólöglega. Þar segir að erfitt sé að meta nákvæm áhrif dómsins á lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum. Þó sé það bráðabirgðamat bankans að ef sambærilegur dómur væri kveðinn upp um lán Arion banka þá yrðu fjárhagsleg áhrif á bankann óveruleg. Arion banki vann sitt vaxtamál í Landsrétti í febrúar. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem á eftir að taka málið fyrir. Það mál sneri að breytingu vaxta á verðtryggðu láni, ólíkt láninu í gær sem var óverðtryggt. „Þar sem vaxtabreytingarskilmálar lána með verðtryggðum vöxtum vísa eðli málsins samkvæmt ekki til vaxta sem Seðlabankinn ákveður er óvissa um niðurstöðu þess máls hjá Hæstarétti meiri en þegar kemur að lánum með óverðtryggða vexti,“ segir í tilkynningu bankans.