Íslandsbanki metur tjón vegna vaxtamálsins innan við milljarð króna

Íslandsbanki gerir ráð fyrir að áhrif dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða verði innan við einn milljarð króna fyrir skatta. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar þar sem gerð er grein fyrir frummati á áhrifum. Áhrifin eru því metin töluvert minni en áhættumat í sumar gaf til kynna. Hæstiréttur úrskurðaði í svokölluðu vaxtamáli Neytendasamtakanna og VR gegn bönkunum í gær. Í málinu var deilt um hvort ákveðnir skilmálar á óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum væru lögmætir eða ekki. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að skilmálar Íslandsbanka væru ólöglegir. Bankinn mætti ekki miða við annað en stýrivexti þegar vöxtunum væri breytt. Málið er eitt af fimm sambærilegum málum sem fara fyrir réttinn. Bankinn sagði í tilkynningu í gær að hugsanleg fjárhagsleg áhrif dómsins væru umtalsvert lægri en gerð hafði verið grein fyrir í óvissuskýringu í árshlutareikningum. Áhættan hefði í sumar verið metin allt að 21 milljarð króna.