Hvernig breytast leikskólagjöld með nýrri leikskólaleið í Reykjavík?

Leikskólagjöld fyrir einstætt foreldri með eitt barn og yfir níu og hálfa milljón í tekjur á ári geta hækkað um rétt tæpar 42.000 krónur á mánuði með nýrri leikskólaleið í Reykjavík. Samhliða því sem opnað hefur verið fyrir samráð um nýtt leikskólamódel í Reykjavík birtir borgin reiknivél þar sem hægt er að sjá hvernig leikskólagjöld breytast útfrá ólíkum forsendum. Samþykkt var í borgarráði í byrjun þessa mánaðar að setja leiðina í samráðsferli og nú er hægt að skila inn umsögum. Samþykkt var í borgarráði í byrjun þessa mánaðar að setja leiðina í samráðsferli og nú er hægt að skila inn umsögum. Tekið verður á móti ábendingum í samráðsferli næstu tvær vikur, fram til 29. október. Breytingarnar sem lagðar hafa verið til snúa að dvalartíma barna, breyttu skipulagi og nýrri gjaldskrá. Umtalsverðar hækkanir fyrir fullnýtingu dvalartíma Það er markmið breytinganna að stytta dvalartíma leikskólabarna með hvötum í gjaldskrá. Hvatarnir miða að því að dvalartíminn sé sem næst 38 stundum á viku og gert ráð fyrir 25% afslætti ef börn eru ekki skráð eftir klukkan 14:00 á föstudögum. Þá verður rukkað sérstaklega fyrir skráningardaga. Hámarksdvalartími verður 42,5 klukkustundir á viku, það er til dæmis 8,5 tímar á dag. Leikskólagjöld geta lækkað með nýju fyrirkomulagi, einkum fyrir þau tekjulægri og fyrir þau sem stilla dvalartíma við 38 stunda viku og fara heim fyrir tvö á föstudögum.