Ahmed al-Sharaa, forseti í bráðabirgðastjórn Sýrlands, vill að Rússar framselji Bashar al-Assad, fyrrverandi einræðisherra landsins. Þessu ætlar hann að koma á framfæri í dag þegar hann fer í sína fyrstu opinberu heimsókn til Rússlands. Að sögn ónafngreinds embættismanns, sem AFP fréttastofan ræddi við, ætlar al-Sharaa að fara þess á leit við Rússa að þeir afhendi alla þá sem tengjast stríðsglæpum í Sýrlandi. Bashar al-Assad og Hafez faðir hans stjórnuðu Sýrlandi harðri hendi um áratugaskeið. Syninum var steypt af stóli í desember eftir áralangt borgarastríð. Hann flýði þá til Rússlands og hefur verið þar í útlegð. Nýi bráðabirgðaforsetinn kom til Moskvu í dag. Hann ræðir við Vladimír Pútín um samskipti ríkjanna og sameiginlega hagsmuni þeirra í heimshlutanum.