Lauf­ey og brúin milli kyn­slóðanna

Ekki þarf að hlusta lengi á Laufey Lín til að átta sig á því að tónlist hennar á rætur í fortíðinni. Því tímabili í sögunni þar sem bandarísk tónskáld og textahöfundar áttu sviðið, sömdu revíur og söngleiki fyrir alþýðuna, áður en sjónvarp kom til sögunnar. Listamenn eins og Cole Porter, George Gershwin, Irving Berlin, Jerome Kern, Richard Rodgers og nokkrir aðrir. Margir hafa reynt að endurskapa ljóðræna fegurð þessa tíma en fáum hefur tekist að blása nýju lífi í hana. Í því felst einstakt afrek Laufeyjar, hún endurvekur ekki aðeins hljóm millistríðsáranna heldur semur ný lög sem eru í senn sígild og nútímaleg.