Vaxtarmarkaverkir á höfuðborgarsvæðinu

Árið 2015 samþykktu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameiginlegt svæðisskipulag til ársins 2040. Þar voru sett bindandi vaxtarmörk húsnæðisuppbyggingar og samkvæmt lögum má aðeins breyta þeim ef öll sjö sveitarfélögin samþykkja. Það þýðir að í reynd hefur hvert þeirra neitunarvald. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vill nú breyta þessu fyrirkomulagi. Hann hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að að breytingar á vaxtarmörkum verði samþykktar ef fimm af sjö sveitarfélögum styðja þær. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, telur slíka breytingu brýna. „Við erum að sjá fram á að verða búin með allar okkar lóðir á næstu tveimur árum. Það er óeðlilegt að önnur sveitarfélög geti komið í veg fyrir að við mætum húsnæðisþörf íbúa okkar,“ segir Ásdís. Hún bendir á að fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu hafi verið tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir þegar mörkin voru ákveðin fyrir tíu árum og að forsendur vaxtamarkanna séu brostnar.„Ef við ætlum að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og sjá verðbólgu hjaðna þá verðum við að auka framboð,“ segir hún. Í Mosfellsbæ er staðan og afstaðan önnur. Bærinn gæti þre- eða fjórfaldast innan núverandi vaxtarmarka. Lovísa Jónsdóttir, 1. varaforseti bæjarstjórnar, varar við því að fella neitunarvaldið úr gildi. „Við setjum svæðisskipulag af ástæðu,“ segir Lovísa og vísar í þróunina fyrir hrun þegar sveitarfélögin byggðu í allar áttir og höfuðborgarsvæðið þandist út. „Það tryggir að uppbygging haldist í hendur við samgöngur og þjónustu. Ef við förum að teygja byggð út fyrir þessi mörk aukum við kostnað fyrir öll sveitarfélögin í heild.“ Hún bendir á að ágreiningur um vaxtarmörk hafi í raun aðeins komið upp einu sinni – þegar Kópavogur hafnaði iðnaðarsvæði Garðabæjar við Heiðmörk – og telur að breyting á lögum sé því óþörf. Lovísa segir að umræðan snúist að hluta um tekjur: „Sveitarfélög eru orðin háð byggingarréttargjöldum til að standa undir rekstri. Það þarf að ræða þann grundvallarvanda en ekki rugla honum saman við svæðisskipulagið.“ Fjallað var um vaxtarmörkin í Kastljósi. Horfa má á allt innslagið hér að neðan: Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vill fella úr gildi neitunarvald sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um breytingar á vaxtamörkum. Kópavogsbær fagnar málinu en Mosfellsbær varar við að grafa undan kerfi sem tryggi samræmda uppbyggingu.