Nefnd um eftirlit með lögreglu gerir ekki athugasemd við viðbragðstíma lögreglu þegar manndráp var tilkynnt á Blönduósi í ágúst 2022, né upplýsingagjöf til aðstandenda. Athugasemdir bárust til nefndarinnar þar sem viðbrögð lögreglu voru sögð svifasein og upplýsingagjöf var gagnrýnd. Nefndinni bárust athugasemdir frá lögmanni um starfsaðferðir hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra og Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Viðbragð lögreglu og fjarskiptamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra var þar sagt svifaseint og upplýsingagjöf til aðstandenda gagnrýnd. Samkvæmt erindinu tók langan tíma fyrir starfsmenn lögreglu að hafa samband við aðstandendur, sem hafi fyrst heyrt af málinu í fjölmiðlum. Þeir hafi fengið upplýsingar frá lögreglu í kringum 10:30 morguninn eftir atvikið. Það hafi verið um einni og hálfri klukkustund eftir að Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hefði upplýst fjölmiðla um atvikið. Upplýsingaóreiða og misvísandi upplýsingar Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra sagði í bréfi til nefndarinnar við upplýsingagjöf hafi verið tekið mið af upplýsingaskyldu sem hvíli á embættinu gagnvart almenningi. Upplýsingaóreiða hafi ríkt og misvísandi og óstaðfestar upplýsingar farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og manna á milli. Óvíst hafi verið hvort slíkum upplýsingum hafi verið deilt eða dreift af ásetningi eða til að valda skaða. „Aftur á móti virðast sögusagnir hafa komist á kreik um málið og jafnframt hafi verið mikill þrýstingur frá fjölmiðlum um að fá upplýsingar um málið. Upplýsingagjöf embættisins tók mið af þessu og var að stórum hluta í því augnamiði að koma í veg fyrir að rangar fréttir og mögulegar falsfréttir færu af stað. Hagsmunir aðstandenda voru þar hafðir að leiðarljósi.“ Nefnd um eftirlit með lögreglu segist ekki gera athugasemd við störf lögreglustjóra hvað þetta varðar. Tilkynning lögreglu gefi villandi mynd Samkvæmt erindinu tók langan tíma fyrir lögreglu að hafa samband við aðstandendur. Þeir hafi fengið upplýsingar frá lögreglu í kringum 10:30, um einni og hálfri klukkustund eftir að Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra hafði upplýst fjölmiðla um atvikið. „Gerðar eru athugasemdir annars vegar við verklag við upplýsingagjöf til aðstandenda í svo alvarlegu máli,“ segir í erindinu. Nefndin skoðaði endurrit samskipta viðbragðsaðila. Þar kom meðal annars fram að 7 mínútur liðu frá fyrstu símhringingu til Neyðarlínu þar til bakvakt lögreglu var kölluð út. Fyrsti lögreglubíll hafi komið á staðinn 25 mínútum eftir það símtal, um 18 mínútum eftir að bakvakt lögreglu og rannsóknarlögreglu var ræst út. Í fréttatilkynningu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra var sagt að viðbragðstími lögreglu hefði verið 26 mínútur. Nefndin segir tilkynninguna gefa villandi mynd af viðbragðstíma lögreglu og því geri hún ekki athugasemd við hann.