„Við erum í raun komin í stellingar núna. Við sjáum að landrisið er orðið það mikið að þegar við skoðum landrisið og berum það saman við líkön okkar, þá erum við komin með ansi mikið af kviku þarna,“ segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri eldvirkni, jarðskjálfta og jarðhniks á Veðurstofunni. Veðurstofan gaf út nýtt mat á stöðunni á gosstöðvunum á Reykjanesskaga í gær. Samkvæmt því er hættumatið óbreytt. Lítillega hefur dregið úr hraða landriss. Þar kom fram að haldi kvikusöfnun áfram á sama hraða verði efri mörkum þess sem talið er að komi eldgosi af stað náð í lok árs. Það eru 23 milljónir rúmmetra. Kristín segir að smáskjálftahrinan á laugardagskvöld bendi til þess að töluverður þrýstingur sé í kvikuhólfinu. Slíkar hrinur hafa orðið í aðdraganda fyrri eldgosa. Í maí og í nóvember í fyrra urðu slíkar hrinur um tveimur vikum áður en eldgos hófst. Kristín segir að mikil óvissa sé um tímasetningar. Hún segir svipuð virkni hafi orðið ítrekað áður en að það þýði ekki að eitthvað gerist á næstu dögum. Hún segir að það gætu verið dagar eða vikur í að eitthvað gerist. „Það bendir allt til þess að eitthvað gerist fyrir jól.“