Gögn sem rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakaði gefa til kynna að ökumaður bíls í banaslysi á gatnamótum Sæbrautar og Súðarvogs í Reykjavík í fyrra hafi verið á meira en tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Bílnum var ekið eftir Sæbraut á sama tíma og kona gekk yfir veginn á móti rauðu ljósi. Ökumaðurinn sagðist aldrei hafa séð konuna. Slysið varð 29. september í fyrra. Ekki má aka hraðar en á 60 kílómetra hraða á klukkustund á Sæbrautinni. Útreikningar á myndbandsupptöku sem rannsóknarnefnd fékk frá þriðja aðila gáfu til kynna að bíllinn hefði verið á 132 kílómetra hraða skömmu fyrir slysið. Upplýsingar úr farsíma ökumannsins gáfu til kynna að bílnum hefði verið ekið á 148 kílómetra hraða rétt fyrir slysið og á 143 kílómetra hraða þegar slysið varð. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur birt skýrslu sína um slysið. Hún segir að meginorsök þess sé sú að bílnum var ekið of hratt. Ef miðað er við farsímagögn sem sýna 143 kílómetra hraða, þá er það 83 kílómetrum yfir 60 kílómetra hámarkshraða. Önnur orsök slyssins er sú að konan sem lést í slysinu fór yfir á rauðu ljósi, samkvæmt því sem kom fram á myndbandi sem rannsóknarnefnd samgönguslysa skoðaði. Nefndin ítrekar fyrri ábendingar sínar um hraðakstur og afleiðingar hans og ítrekar tilmæli sín um að ökumenn aki ekki hraðar en hámarkshraði og aðstæður hverju sinni leyfa. Jafnframt minnir hún á mikilvægi þess að virða alltaf umferðarreglur og gönguljós.