Slökkvistarfi lokið á Ásbrú og lögregla rannsakar upptök eldsins

Slökkvilið lauk störfum á vettvangi bruna í iðnaðarhúsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ á ellefta tímanum í morgun. Eldur kviknaði í nótt og slökkvilið náði tökum á honum í morgun. Eyþór Rúnar Þórarinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, átti von á miklu starfi í dag því töluverður eldur kviknaði milli þilja í húsinu, sem er um 950 fermetrar að stærð. Hann sagði í samtali við fréttastofu að nú hefði tekist að slökkva allan eld í húsinu. Síðustu slökkvikliðsmenn fóru af vettvangi um klukkan 10:30. Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn á eldsupptökum. Slökkvilið var kallað út snemma í morgun.RÚV / Þorgils Jónsson