Bændur segja nýjan veg valda flóðum í kartöflulöndum Hornfirðinga

Í Nesjum í Hornafirði er kartöflurækt aðalbúgrein á þremur bæjum og aukabúgrein á einum til viðbótar. Flest kartöflulöndin standa lágt eða aðeins rúmum metra fyrir ofan sjávarmál. Því þarf allt vatn að komast greiðlega til sjávar. Nýr vegur yfir Hornafjarðarfljót virkar hins vegar eins og stífla og í vatnavöxtum kemst vatnið hvergi nema undir nýju brýrnar og ákveðin ræsi. Eftir að vegurinn kom hafa bændur orðið fyrir tjóni og vatn flæddi yfir ræktarlöndin í tvígang í haust. Þetta gerðist líka í fyrra og þá greiddi Vegagerðin bændum bætur fyrir skemmdir á uppskerunni. Þá var vísað til þess að framkvæmdum væri ólokið og ekki búið að hleypa vatni undir nýju brýrnar á nýjum vegi. En nú er það búið og samt flæddi aftur yfir akrana. Kartöflubændur í Hornafirði gætu átt rétt á bótum frá Vegagerðinni og fullyrða að nýr vegur yfir Hornafjarðarfljót valdi flóðum í kartöflulöndum. Bændur óttast að ræktarland skaðist varanlega verði ekkert að gert. Hundrað ára flóð komu tvisvar í september Mikið er í húfi og Sveinn Rúnar Ragnarsson, kartöflubóndi í Akurnesi, sýnir okkur inn í nýju kartöflugeymsluna. Þar er milljónavirði af kartöflum í kælingu sem rétt náðust upp fyrir flóðin. Umflotnar kartöflur eyðileggjast á tveimur dögum. „Vegurinn heldur vatninu ofan við sig og það er búið að minnka vatnaopið með brúargerðinni um að minnsta kosti tvo þriðju. Þannig að brýrnar hafa ekki undan að hleypa vatninu undir sig. Þá er þetta niðurstaðan: Vatnsborðið ofan vegar hækkar og flæðir inn í garðlönd. Það var búið að benda á að þetta yrði afleiðing af framkvæmdinni og á það var ekki hlustað. Talið var að þetta gæti eingöngu gerst í hundrað ára flóðum í ánum. En nú gerðist þetta tvisvar, bara í september,“ segir Sveinn Rúnar. Garðarnir verða blautari og kaldari og verri til ræktunar Bændur benda líka á að ekki þurfi vatnavexti og flóð til að trufla ræktunina. Grunnvatnsstaðan hafi hækkað, sem bæði bleyti og kæli garðana og geri þá verri til ræktunar. Bændur höfðu reyndar varann á sér, tóku upp snemma og sluppu fyrir horn að mestu nú í haust. Þeir benda samt á að miklar rigningar gætu líka komið fyrr, til dæmis í ágúst áður en kartöflurnar eru teknar upp. Hjalti Egilsson, kartöflubóndi á Seljavöllum, segir muninn greinilegan eftir framkvæmdirnar. „Þegar vex í ánum hér, þegar koma miklar rigningar þá hefur þetta brúarop engan veginn undan. Þá hækkar hér fyrir ofan veginn virkilega allt vatn. Það hefur endað með því að það hefur flætt yfir á akrana, sem skeði nú aldrei hér áður fyrr. Það sem maður hefur miklar áhyggjur af er að þarna sé að verða varanlegur skaði á mjög góðum garðlöndum. Við höfum tekið eftir því í fyrrasumar og núna í sumar að það rennur ekki eins vel frá svæðinu. Þannig að það verður þá blautara og kaldara og erfiðara til ræktunar. Þarna eru dýrmæt kartöflulönd sem hafa verið að skila mjög góðum afurðum undanfarin ár,“ segir Hjalti. Vilja bætur og mótvægisaðgerðir Mögulega þarf að endurskoða bætur sem bændur fengu fyrir land hjá matsnefnd eignarnámsbóta og þar er málum haldið opnum í ákveðinn tíma eftir að framkvæmdum líkur. Hjalti og Sveinn Rúnar eru sammála um að kanna verði hvort hægt sé að grípa til mótvægisaðgerða. „Það verður náttúrlega að bæta það land sem er að fara undir vatn og jafnvel að reyna að finna einhverjar lausnir til að draga úr því að þetta gerist svona þétt. Annars er útséð að það er ekkert hægt að rækta kartöflur á þessum stöðum,“ segir Sveinn Rúnar Ragnarsson, kartöflubóndi í Akurnesi í Hornafirði.