Mikilvægt að greina hvort lagasetning hafi veruleg áhrif á landsbyggðina

Markmiðið með landsbyggðarmati er að tryggja að stefnumótun og lagasetning stjórnvalda taki markvisst tillit til ólíkra aðstæðna í þéttbýli og dreifbýli. Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, leggur tillöguna fram. „Aðferðafræði landsbyggðarmats byggist á fjórum skrefum: skimun til að greina hvort mál hafi veruleg áhrif á dreifbýli, ítarlegu mati á umfangi og eðli áhrifa, aðlögun og mótvægisaðgerðum eftir þörfum, og loks eftirfylgni og gagnasöfnun til að tryggja að áhrif séu metin á kerfisbundinn hátt,“ segir í tillögunni. Hugmyndin er að erlendri fyrirmynd og er horft til Norður-Írlands, Finnlands, Englands og Kanada. Landsbyggðargleraugu fyrir stjórnvöld Ingibjörg segir að skort hafi á jafnvægi við setningu laga, sem hafi misjöfn áhrif á landsmenn. Mikilvægt sé að horfa til sjónarmiða landsbyggðarinnar þegar lög eru sett. Hún eigi ekki að njóta sérstakra forréttinda heldur verði allir að sitja við sama borð. „Hvaða áhrif hefur það til dæmis að sameina sýslumannsembættin? Hvaða áhrif hefur það að taka póstþjónustuna úr heimabyggð? Hvaða áhrif hefur það að unga fólkið okkar þarf að fara til Reykjavíkur til þess að taka til dæmis inntökupróf í Háskóla Íslands?“ Þar sem stjórnsýslan sé öll á höfuðborgarsvæðinu sé snúið að setja sig í spor allra. „Fólkið sem tekur þessar ákvarðanir býr flest á höfuðborgarsvæðinu og getur eðlilega ekki sett sig í spor þeirra sem búa á landsbyggðinni og áttað sig á því hvaða áhrif vissar ákvarðanir geta haft á líf þessara einstaklinga.“ Allir sammála um að landið þurfi að vera í blómlegri byggð Jón Björn Hákonarson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir jákvætt að horft sé til allra þátta við setningu laga og reglugerðar. Sambandið leggi mikla áherslu á kostnaðarmat í málum sem snerta sveitarfélögin. „Ég hef engan hitt sem ekki er sammála því að landið þarf að vera í blómlegri byggð. Þá er auðvitað mikilvægt að horfa á alla þætti sem áhrif geta haft á þá byggð. Þannig að ég held að þetta sé mikilvægt inni í þessu. En um leið bara mikilvægt að það sé ávallt horft til þess.“