Fulltrúi Landverndar segir sig úr stjórn Kolviðar vegna aðdróttana um heilindi Náttúrufræðistofnunar

Stjórn Landverndar er ósátt við bréf sem Kolviður sendi til Borgarbyggðar í sumar í tengslum við skógræktarverkefni á Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal. Bréfið var svar við umsögn Náttúrufræðistofnunar. Landvernd vill að ummælin verði dregin til baka og annar fulltrúi Landverndar hefur sagt sig úr stjórn Kolviðar. Hvað er Kolviður Kolviður er sjóður sem Skógræktarfélag Íslands og Landvernd stofnuðu árið 2006. Kolviður selur kolefnisbindingu gegnum skógrækt. Í stjórn Kolviðar sitja tveir fulltrúar frá Landvernd og tveir frá Skógræktarfélagi Íslands auk formannsins. Náttúrufræðistofnun varaði við áhrifum á líffræðilega fjölbreytni Kolviður sótti um framkvæmdaleyfi fyrir skógræktinni á Iðunnarstöðum til Borgarbyggðar og í lok júní gerði Náttúrufræðistofnun athugasemd við áformin. Umsögn Náttúrufræðistofnunar var gagnrýnin á skógrækt sem kolefnisbindingu. Þar var bent á að kolefnisbinding sem fæli í sér mikið af nýjum plöntum gætu haft skaðleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Stofnunin lýsti áhyggjum af búsvæðum vaðfugla og varaði við gróðursetningu erlendra trjátegunda, sér í lagi stafafuru. Kolviður segir villandi umræðu farna að valda bakslagi í skógrækt Þann 8. júlí sendi Kolviður svo bréf til Borgarbyggðar sem stjórn Landverndar segir ekki sýna eðlilega háttvísi í samskiptum. Bréfið er undirritað fyrir hönd Kolviðar af Reyni Kristinssyni, stjórnarformanni Kolviðar. Þar segir að Kolviður efist um heilindi Náttúrufræðistofnunar: „Umsagnir stofnunarinnar hafa á sér æ meiri brag markvissrar ófrægingarherferðar gegn skógrækt og skógræktarfólki en eðlilegri, hlutlausri afgreiðslu umsagna frá hendi ríkisstofnunar til sveitarfélags. Til þess að geta gegnt hlutverki óháðs umsagnaraðila, getur ríkisstofnun varla stundað markvissa dreifingu upplýsingaóreiðu um skógrækt.“ Landvernd harmar aðdróttanir Í tilkynningu Landverndar kemur fram að fulltrúar Landverndar, Gunnlaugur Friðrik Friðriksson og Tryggvi Felixson, hafi engan þátt átt í bréfinu og að það hafi verið sent án samráðs við stjórn Kolviðar. Þegar ljóst varð hvers kyns var óskuðu fulltrúar Landverndar eftir að málið yrði tekið til umfjöllunar stjórnarinnar og ummælin dregin til baka. Stjórn Kolviðar samþykkti að senda yfirlýsingu til Náttúrufræðistofnunar en kom sér ekki saman um hvað ætti að standa í henni. Fulltrúar Landverndar lýsa yfir fullu trausti til Náttúrufræðistofnunar og annar þeirra hefur sagt sig úr stjórn Kolviðar. Í tilkynningu Landverndar segir: „Stjórn Landverndar telur óviðunandi að stjórn Kolviðar skuli ekki hafa getað staðið sameinuð að því að draga til baka ummæli sem veikja trúverðugleika lykilstofnunar í íslenskum náttúrurannsóknum.“ Hvað stóð í bréfinu? Bréf Kolviðar er aðgengilegt í Skipulagsgátt . Það er 15 blaðsíður og farið ítarlega í gagnrýni á umsögn Náttúrufræðistofnunar. Í niðurlagi þess segir: „Kolviður er tekinn mjög að efast um heilindi Náttúrufræðistofnunar þegar kemur að því að veita umsagnir um framkvæmdaleyfi til skógræktar með hlutlægum og trúverðugum hætti. Umsagnir stofnunarinnar hafa á sér æ meiri brag markvissrar ófrægingarherferðar gegn skógrækt og skógræktarfólki en eðlilegri, hlutlausri afgreiðslu umsagna frá hendi ríkisstofnunar til sveitarfélags. Til þess að geta gegnt hlutverki óháðs umsagnaraðila, getur ríkisstofnun varla stundað markvissa dreifingu upplýsingaóreiðu um skógrækt. Hvort treysta megi túlkun Náttúrufræðistofnunar á þeim rannsóknum sem eiga að liggja að baki flokkun og mikilvægi vistgerða fyrir líffræðilega fjölbreytni eða álitum Náttúrufræðistofnunar um meint, neikvæð umhverfisáhrifum nýskógræktar, s.s. á mófugla. Í öllu falli gefa aðgengilegar upplýsingar ekki til kynna að röksemdir séu nægilega afgerandi fyrir svæðisbundna stefnumótun um landnýtingu, t.d. á einstökum jörðum í Lundareykjadal. Raunar teljum við flest í framangreindri umsögn Náttúrufræðistofnunar úr lausu lofti gripið eða afbakað og vísum því til föðurhúsanna. Villandi umræða um umhverfisáhrif skógræktar er farin að valda bakslagi í skógrækt á Íslandi. Einkaaðilar eru teknir að halda að sér höndum, skógarplöntur hafi verið afpantaðar og sveitarfélög eru tvístígandi í leyfisveitingum, ekki síst vegna upplýsingaóreiðunnar sem rennur viðstöðulaust út um fjölmiðla og samfélagsmiðla, ekki síst innan úr ríkisstofnunum. Það er því kominn tími til að Borgarbyggð og önnur sveitarfélög íhugi af alvöru, hvort leita beri út fyrir landsteinana (t.d. til Svíþjóðar eða Finnlands) eftir óháðri sérfræðiráðgjöf í tengslum við veitingu framkvæmdaleyfis til nýskógræktar í einu skóglausasta ríki í víðri veröld. Fullreynt er, að leiðarljós Náttúrufræðistofnunar í umsögnum sínum er sú staðfestingarskekkja, að trjágróður á Íslandi sé af hinu illa og að skógur eigi hvergi heima í íslensku umhverfi. Sé ekki hægt að treysta á þeirra ráðgjöf, verður að leita annað.“