Vilja myrkravin í Norðurþingi

Sveitarfélagið Norðurþing vill verða fyrsta myrkravinin á Íslandi. Hugmyndin snýst um að lágmarka ljósmengun og einblína á myrkrið og stjörnurnar í þjónustu við ferðamenn. Hjálmar Bogi Hafliðason, foseti bæjarstjórnar, segir tímabært að virkja myrkrið og horfa til himins. Hugmyndin um myrka ferðaþjónustu er ekki ný af nálinni. Hún er unnin í samvinnu við alþjóðlegu samtökin DarkSky sem veita dimmum ferðamannastöðum sérstaka viðurkenningu. Næturljósmyndun, stjörnubað og lautarferð undir stjörnuhimni Hugmynd DarkSky byggir á því að lágmarka ljósmengun og einblína á myrkrið og stjörnurnar. Samtökin hafa miðlað upplýsingum um ljósmengun allt frá árinu 1988. Tækifærin eru fjölmörg í Norðurþingi að mati Hjálmars og nefnir hann staði eins og Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi þar sem klettarnir geti verið mjög tilkomumiklir í næturmyrkrinu. Einnig nefnir hann stjörnubað, næturljósmyndun, næturhátíðir, lautarferðir í myrkrinu og jóga undir berum himni í Heimskautsgerði. Þá megi bæta við öðrum þáttum eins og gistingu sem einnig gæti fengið DarkSky-stimpil. Sífellt fleiri vilja upplifa kyrrð í hraðadýrkandi samfélagi Hjálmar segir Ísland kjörinn stað fyrir myrkravin, þar sem mikið myrkur sé stóran hluta ársins. Það sé sífellt vinsælla að fá að upplifa kyrrð í hraðadýrkandi samfélagi. Hann nefnir dæmi um garða í Skotlandi og Bandaríkjunum sem milljónir ferðamanna heimsæki ár hvert til þess að njóta myrkurs. Þá séu norðurljósin sérstakur bónus. „Þetta er kannski fyrst og fremst myrkrið og stjörnurnar. Svo bætum við í einmitt, þessi norðurljós sem við höfum hér, sem Einar Ben ætlaði að selja á sínum tíma. Nú er bara komið að því.“