37% landsmanna finnast þau vera útkeyrð í lok vinnudags að minnsta kosti einu sinni í viku og fjórðungur kveðst vera útbrunninn vegna starfs síns. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Prósents um kulnun sem framkvæmd var í sjötta sinn. Samkvæmt niðurstöðunu falla 9% undir svokallaða MBI-skilgreiningu á kulnun sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin styðst við. Þar endurspeglast kulnun í mikilli tilfinningalegri örmögnun og tortryggni og minni afköstum í starfi. Trausti Haraldsson framkvæmdastjóri Prósents segir niðurstöðurnar fela í sér ákveðin vonbrigði. „Maður var að vonast til þess að kulnunin myndi lækka eitthvað af því að maður veit að stofnanir og fyrirtæki eru að taka þessa hluti alvarlega.“ Mælingarnar hafi hins vegar staðið nokkurn veginn í stað síðustu ár, þó að hlutfall þeirra sem falli undir skilgreiningu um kulnun hafi lækkað um 4% frá því að það var hæst árið 2022. Niðurstöðurnar gefa til kynna að 40% einstaklinga á vinnumarkaði séu virkir. 29% sögðust vera árangurslausir, 20% ofþreyttir, 9% í kulnun og 2% óvirkir. Þessi hlutföll hafa haldist svipuð síðustu ár. Í könnuninni er fólk spurt út í ýmist atriði sem margir tengja eflaust við, til að mynda þreyta á morgnana og í lok vinnudags. Trausti segir að ein og sér, og til skamms tíma, séu þau ekki endilega merki um kulnun. Það sem aðskilji kulnun frá almennri eða eðlilegri þreytu sem flestir finni fyrir í daglegu lífi sé langvarandi ástand sem hafi mikil áhrif á líðan fólks. „Með almennri þreytu ertu enn þá með áhuga á vinnunni og sérð tilgang í henni. Þegar þú ert kominn í kulnun og langvarandi þreytu þá ertu farinn að finna fyrir sinnuleysi og neikvæðni, líkamleg áhrif eru orðin veruleg, langvarandi ójafnvægi og streita.“ Mikilvægt að bregðast snemma við Trausti segir lausnir gegn kulnun vera mismunandi eftir aðstæðum og mörg fyrirtæki leggi áherslu á slíkt. Hins vegar sé mikilvægast að fylgjast vel með og reyna að koma í veg fyrir kulnun áður en hún nær fótfestu. „Það er erfitt að vinna í hópnum sem er kominn í kulnun. Þá þarf miklu meiri úrræði og meiri kostnað í slíkt. Með því að mæla þetta reglulega og vera með puttann á púlsinum þá er miklu meiri möguleiki að grípa fyrr í og koma í veg fyrir að þessi tala sé að hækka eða haldist sú sama. Hún myndi þá jafnvel lækka.“ Könnunin byggði á um 900 svörum einstaklinga 18 ára og eldri af vinnumarkaði víðst vegar um landið. Svarhlutfall var um 50%.