Stefnir í taprekstur hjá Icelandair í ár

Icelandair birti í dag drög að uppgjöri þriðja ársfjórðungs. Þar kemur fram að afkoma félagsins er um 10 milljónum dollara lægri en á sama tíma í fyrra, eða sem nemur 1,2 milljörðum króna. Alls er gert ráð fyrir um 74 milljóna dollara EBIT-hagnaði á fjórðungnum, sem samsvarar um 9 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma fyrir ári síðan var EBIT-hagnaður 83,5 milljónir dollara, eða rúmlega 10 milljarðar króna. Í tilkynningu Icelandair segir að gert hafi verið ráð fyrir aukinni arðsemi á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Sú þróun hafi ekki gengið eftir. Sterk króna hækkar launakostnað Það sem nefnt er til útskýringar er sterkt raungengi krónunnar, sem veldur hækkun á launakostnaði. Einnig er hátt eldsneytisverð nefnt. Þá hafði ófyrirséð skammtímaleiga á flugvél í ágúst vegna viðgerðar á annarri vél aukinn kostnað í för með sér. Staða félagsins er sögð sterk í lok september en þá var handbært fé um 410 milljónir dollara eða um 50 milljarðar króna. Uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2025 verður birt miðvikudaginn 22. október. Flugvélum fækkað um tvær Flugvélum sem sjá um tengingar milli Evrópu og Bandaríkjanna verður fækkað um tvær árið 2026 vegna veikrar eftirspurnar á markaði. Þrátt fyrir fækkun flugvéla er þó gert ráð fyrir að heildarframboð ársins, mælt í sætiskílómetrum, haldist nánast óbreytt á milli ára. Miðað við áætlanir Icelandair er gert ráð fyrir að EBIT-afkoma fyrir árið í heild verði neikvæð sem nemur 10 - 20 milljörðum dollara eða 1,2 til 2,5 milljörðum króna. Tekið er fram að matið sé enn í vinnslu og geti tekið breytingum.