Landsbankinn hefur sett móttöku á nýjum umsóknum um íbúðalán á bið fram yfir helgi. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans sem birt var í dag vegna dóms Hæstaréttar í máli Neytendasamtakanna gegn Íslandsbanka fyrr í vikunni. Bankinn segir að dómur Hæstaréttar gefi tilefni til að fara yfir skilmála um breytilega vexti í nýjum íbúðalánum og því hafi nýjum umsóknum verið frestað. Unnið verði með viðskiptavinum að afgreiðslu þeirra lánaumsókna sem þegar eru í vinnslu hjá bankanum. Tvö mál gegn Landsbankanum til Hæstaréttar Tekið er fram í tilkynningunni að Hæstiréttur eigi eftir að dæma í málum sem höfðuð hafa verið gegn Landsbankanum og varða sambærileg málefni. Málin séu þó ekki eins að öllu leyti og mál Íslandsbanka. Landsbankinn telur þörf á að fá umfjöllun og niðurstöðu frá Hæstarétti svo unnt sé að taka afstöðu til vaxtabreytinga sem gerðar hafa verið á sambærilegum lánum bankans. Á vef Neytendasamtakanna kemur fram að tvö mál hafi verið höfðuð gegn Landsbankanum. Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni í báðum málum en dagsetning málsmeðferðar liggur þó ekki fyrir.