Spyr hvort Þórunn hyggist tilnefna Trump til friðarverðlauna

Þingmaður Miðflokksins, Karl Gauti Hjaltason, varpaði í dag fram spurningu um hvort forseti Alþingis, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hygðist tilnefna Donald Trump Bandaríkjaforseta til friðarverðlauna Nóbels. Undir liðnum störf þingsins benti þingmaðurinn á að forseti ísraelska þingsins, Amir Ohana, ásamt forseta Bandaríkjaþings, Mike Johnson, hygðust hvetja þingforseta víða um heim til að tilnefna Trump til verðlaunanna á næsta ári. „Fyrir nokkrum dögum tókst að ná samningum um vopnahlé í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs og allir geta verið sammála um að forseti Bandaríkjanna á mestan þátt í átökunum linnti og gíslunum var sleppt,“ sagði Karl Gauti í ræðu sinni. „Leiðtogar víða um heim hafa tekið undir með forsetanum og þannig hafa til að mynda stjórnvöld í Pakistan tekið undir hvatningu hans. Frú forseti, má ekki gera ráð fyrir að forseti Alþingis muni taka vel í þessa hvatningu?“ Þórunn svaraði ekki spurningu þingmannsins sérstaklega en forseta ber ekki skylda til þess. Trump hlaut ekki friðarverðlaunin í ár, en hafði látið þau ummæli falla að það væri móðgun við Bandaríkin hlyti hann þau ekki.. María Corina Machado, leiðtogi venesúelsku stjórnarandstöðunnar, hlaut verðlaunin að þessu sinni en tileinkaði þau Trump og venesúelsku þjóðinni.