Umhverfis- og skipulagsráð hefur fallið frá götuheitinu Fífilsgata og samþykkt tillögu götunafnanefndar um að hún verði framlenging af götunni Hlíðarfæti. Örnefnanefnd gerði borgina afturreka með heitið þar sem það þótti of líkt öðru götuheiti í miðborginni. Fífilsgata er ein af þeim götum á lóð Landspítalans sem var lagt til að yrði nefnd eftir þekktum íslenskum lækningajurtum en önnur dæmi um tillögur að götuheitum í þeim dúr eru Burknagata, Njólagata, Hvannargata og Blóðbergsgata. Þá kallast nöfnin á við nærliggjandi götur á borð við Sóleyjargötu og Fjólugötu. Í næsta nágrenni er aftur á móti Vífilsgata, sem er líkt og aðrar götur þar í kring nefnd eftir sögufrægu fólki frá landnámstímanum. Sú gata er nefnd eftir Vífli, þræl landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Götuheitin þóttu svipa of mikið til hvors annars og þar með geta valdið ruglingi. Sitthvort póstnúmerið og kjördæmið Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson vakti athygli á ákvörðuninni á Facebook-reikningi sínum. Sjálfur segist hann hafa stungið upp á að gatan yrði kölluð Fífilsbrekka í ljósi þess að hún er í nokkrum halla og fæli þar að auki í sér bókmenntavísun í Jónas Hallgrímsson. Niðurstaðan hafi orðið nokkuð flatneskjulegri að hans mati og honum þyki hún óheppileg fyrir tvær sakir. Fyrir það fyrsta sé gatan nú í sitthvoru póstnúmerinu, 101 og 102. Enn óheppilegra sé að hún sé einnig í sitthvoru kjördæminu. Þá sé götuheitið á skjön við staðhætti þar sem heitið Hlíðarfótur vísi til þess að Hlíðarendahverfið sé í hlíðarfæti Öskjuhlíðar. „Þarna er gatan hins vegar látin teygja sig upp eftir rótum Skólavörðuholts og er því á kolröngum stað. Þetta er örnefnaklám og það vill enginn sjá!“