Ofbeldi gegn öldruðum er dulið vandamál og heimilið er ekki alltaf griðastaður. Eldra fólk veigrar sér við að tilkynna ofbeldi - gerendurnir eru oftast nánustu aðstandendur. Hrottaleg ofbeldismál gagnvart öldruðu fólki sem hafa komið upp á undanförnum mánuðum urðu kveikjan að málþingi sem Landssamband eldri borgara heldur á morgun undir heitinu Ofbeldi er ógn - tryggjum öryggi eldra fólks. „Það hefur komið í ljós að þetta er aðeins brot af því sem raunveruleikinn er,“ segir Sigurður Á. Sigurðsson varaformaður Landssambands eldri borgara. Margar birtingarmyndir Ofbeldið á sér margar birtingarmyndir, segir Sigurður. Heimilisofbeldi er sú algengasta, en fjárhagslegt ofbeldi er að aukast - þar sem aldraðir eru ginntir til að láta fé af hendi eða veita aðgang að heimabanka. Og gerendurnir eru sjaldnast ókunnugir. „Það eru oftast nákomnir aðilar. Ættingjar, vinir, trúnaðarmenn og slíkt, sem eru þeim nánastir.“ Veistu til þess að mál af þessu tagi hafi ratað á borð lögreglu? „Já.“ Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að á hverju ári verði 16% eldra fólks fyrir einhverskonar ofbeldi. Algengara er að konur verði fyrir því en karlar, einnig einstæðingar og þeir sem eiga fáa að. „Ef við heimfærum það á Ísland erum við að tala um svona 1.000 tilfelli. En brotabrot af því kemur inn á borð lögreglu,“ segir Sigurður. Kallar eftir embætti umboðsmanns aldraðra Hann segir þörf á meiri aðstoð við aldraða í þessari stöðu. Til dæmis að setja á stofn embætti umboðsmanns aldraðra - en reglulega hefur umræða um nauðsyn þess skotið upp kollinum undanfarin ár. Er þetta falið vandamál? „Já. Mjög svo“ Afhverju? „Þolendurnir, sem er fullorðið fólk, veigrar sér við að hringja í lögreglu út af ættingja, vini, vandamanni.“ Hindra að sá aldraði fái aðstoð Starfsfólk í heimahjúkrun verður vart við ofbeldið og stígur oft inn í óboðlegar aðstæður, segir Inga Valgerður Kristinsdóttir doktor í heimahjúkrun á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Bæði það sem við köllum vanrækslu, einnig andlegt, líkamlegt ofbeldi, fjárhagslegt og kynferðislegt. Við höfum því miður upplifað allt þetta.“ Hverjir beita fólkið ofbeldi? „Það er því miður, eins og í öllu öðru ofbeldi, þá er það hans nánasti. Nánasti aðstandandi. Það geta verið börn, fullorðin börn hins aldraða og maki.“ Ein birtingarmyndin getur verið að hindra að sá aldraði njóti aðstoðar á borð við dagdvöl eða vist á hjúkrunarheimili. „Og þá grunar okkur að það sé fjárhagslegur hvati hjá aðstandanda, oft er það barn sem býr með viðkomandi og þá á sá aldraði húsnæðið og bætur koma þar heim. En ef einstaklingurinn myndi flytja, myndu þessar aðstæður breytast. Þetta er eitt af því sem við höfum orðið vitni að.“ Stundum þau einu sem fá að vita af ofbeldinu Inga segir að fólk vilji sjaldan kæra, því það sé gjarnan háð gerandanum. „Þeim finnst það mjög stórt skref. Við höfum stundum hugsað að það væri leið - sambærilegt við að tilkynna til barnaverndarnefndar.“ „Eruð þið stundum þau einu sem fórnarlambið segir frá? „Það getur alveg verið þannig.“ Talið er að um eitt þúsund aldraðir Íslendingar verði fyrir ofbeldi af einhverju tagi á hverju ári. Nánustu aðstandendur eru oftast gerendur og dæmi eru um að þeir hindri að sá aldraði flytji á hjúkrunarheimili.