Klókt að hafa friðarsamkomulag eins óljóst og hægt er

Bandaríkin leika lykilhlutverk í að vopnahléssamkomulag á Gaza haldi. Hernaðarsagnfræðingur segir að það hafi alltaf legið fyrir að vopnahléið sé brothætt en vilja Hamas og ísraelskra elskra stjórnvalda þurfi til að það haldi. Hjaðningavíg á Gaza og aðgerðir Ísraelsmanna koma ekki á óvart Ýmis merki eru um að vopnahléið á Gaza sé á viðkvæmum stað. Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur segir að það hafi alltaf legið fyrir að vopnahléið sé brothætt. Bæði Hamas og Ísraelsher hafa þurft að sitja á sér eftir að það tók gildi. Ísraelsher hefur gert stöku árásir á íbúa á Gaza, að því er Al Jazeera greinir frá , síðan vopnahléið hófst fyrir viku síðan. Átök hafa einnig blossað upp milli Hamas og annarra hópa Palestínumanna á svæðinu. „Það kemur ekki á óvart að það hafi verið einhverjar skærur núna, einhver hjaðningavíg inni á Gaza, þar sem er ákveðin valdabarátta. Eins aðgerðir Ísraelsmanna, að þeir hafi síðan takmarkað að einhverju leyti flutning hjálpargagna til að refsa fyrir skil á líkamsleifum. Allt þetta er tiltölulega viðkvæmt en það fer svolítið eftir vilja deiluaðilanna og síðan bandarískra aðila sem eru að þrýsta á þá.“ Hernaðarsagnfræðingur segir klókt hjá Bandaríkjaforseta að hafa friðarsamkomulag milli Hamas-samtakanna og Ísraels eins óljóst og hægt er. Bandaríkin leiki lykilhlutverk í að það haldi. Hamas-samtökin hafa afhent Ísraelum átta lík gísla sem létust í þeirra haldi, en greining á einu þeirra leiddi í ljós að það var ekki af neinum sem Hamas tók í gíslingu 7. október fyrir tveimur árum. Hamas segja líkið vera af ísraelskum hermanni. Ísraelar krefjast þess að samtökin standi við fyrirheit og afhendi lík tuttugu gísla sem voru í þeirra haldi. Háværar raddir eru í Ísrael um að Hamas hafi með þessu brotið vopnahléssamninga. Samtökin segjast hafa afhent allar líkamsleifar sem þau hafi náð til. Ísraelsk stjórnvöld afhentu síðdegis líkamsleifar 45 Palestínumanna. Friðarsamkomulag snýst um vilja Erlingur segir skilmála vopnahlésins í grunninn raunhæfa en að samkomulagið snúist um vilja. Hamas séu þó í miklu erfiðari samningsstöðu eftir að þeir létu frá sér gíslana sem enn eru á lífi. „Þeir eru búnir að láta frá sér í raun og veru sína samningsstöðu þannig að nú geta þeir verið undir einhverri pressu og ef Ísraelsmenn sjá sér hag í að hefja aftur hernað gæti það allt eins orðið, og þetta vopnahlé verið búið.“ Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur krafist þess að Hamas afvopnist innan ákveðins tíma og ef það gerist ekki ætli hann að taka til sinna mála. Erlingur segir að hrósa megi Trump fyrir að hafa verið klókur þegar hann lagði fram friðaráætlun á Gaza. „Þessir 20 punktar voru dálítið óljósir og það var keyrt á að stoppa átökin fyrst og fremst. Þar er vissulega talað um afvopnun Hamas en þeir sendu mjög fljótt frá sér skilaboð að það væri eitthvað sem þeir gætu ekki sætt sig við og ekki sætt sig við að vera útilokaðir frá palestínskum stjórnmálum. Þannig að það held ég að hafi verið klókt af hans hálfu að taka þann slag ekki.“ Trump geri þetta til að setja þrýsting á Hamas, ekki séu til nein úrræði til að gera það eins og er. „Aftur er þetta hluti af diplómatísku samningaferli þar sem báðir aðilar eru undir ákveðnum þrýstingi en Ísrael kannski í vænlegri stöðu eftir að gíslarnir voru frelsaðir.“ Sjái Ísraelsmenn sér hag í að hefja aftur hernað á Gaza geti það allt eins orðið. „Þá getur þetta vopnahlé verið búið. Þannig að það er löng vegferð framundan líka að smíða einhvers konar stöðugleika á svæðinu, hefja uppbyggingu, koma með friðargæslulið og slíkt. Þannig að það eru öll stóru spurningarmerkin og óvíst hvort það takist.“ Algjört dauðafæri til að ná stöðugleika á svæðinu Erlendur telur líklegra að vopnahléið rofni ef Ísraelar ákveði að niðurstaðan og ferlið henti þeim ekki. „Ég hugsa að þeim líði ekkert vel með tilhugsunina um alþjóðlegt friðargæslulið og hafi engan áhuga á að leyfa palestínskt ríki á Gaza eða Vesturbakkanum, eða sameinað. Það eru mjög erfiðir þröskuldar framundan sem þarf að leysa. Til þess að það gangi þarf gríðarlega mikla pressu á Ísrael sem ég er ekki viss um að Bandaríkjaforseti sé tilbúinn að setja.“ Erlendur telur að fresta verði útfærslu á leið Palestínumanna til fullveldis og sjálfstæðs ríkis. „Það er einfaldlega of erfitt deiluefni og of mikið í milli hjá deiluaðilum hvað það varðar. Þannig að fókusinn núna ætti að vera að koma mannúðaraðstoð inn á Gaza, að teikna upp hvernig uppbygging gæti litið út og hvernig ætti að flytja fjármagn í það. Og síðan koma á alþjóðlegu friðargæsluliði, fyrst og fremst frá Arabaríkjunum, þannig að það sé hægt að koma á einhvers konar stöðugleika.“ Einnig sé mikilvægt að hafa eftirlit með báðum aðilum þannig að ef vopnahlé sé brotið þá liggi fyrir hver sé þar á bakvið. „Það held ég að geti aukið á stöðugleikann. En stóru spurningarnar, ég held að það sé langbest að fresta þeim. Þó það sé auðvitað óréttlátt fyrir palestínsku þjóðina eftir sína áratuga vegferð.“ Bandaríkin leika lykilhlutverk í framhaldinu. Erlingur segir þau spila ákveðið hlutverk í að hafa báða deiluaðila í hálfgerðri spennutreyju, þá sérstaklega Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og stjórnmálasamfélagið þar. „Og gera þeim grein fyrir því að þetta sé í raun algjört dauðafæri til að ná stöðugleika á svæðinu.“