Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, telur að breytingar á gjaldskrá í leikskólum borgarinnar og stytting dvalartíma barna komi öllu láglauna- og verkafólki vel, standi Reykjavíkurborg rétt að tekjutengingu þeirra. Sólveig Anna heimsótti í morgun leikskólann Nóaborg, sinn gamla vinnustað, en heimsóknir á leikskóla borgarinnar eru hluti af samráðsferli við ófaglært starfsfólk sem stendur út þessa viku. Hún segir ástandið hafa í raun verið ólíðandi á síðustu árum, og sé slæmt fyrir alla. Formaður Eflingar heimsækir leikskóla borgarinnar í dag og á morgun. Það er hluti af samráðsferli við ófaglært starfsfólk sem stendur út þessa viku. Hún segir fyrirhugaða breytingu á gjaldskrá í Reykjavík koma láglaunafólki vel. „Það fáliðunarmódel sem borgin hefur verið að reka leikskólana á, það er módel sem kemur sér sérstaklega illa fyrir verka- og láglaunafólk. Það er ekki auðvelt fyrir fólk sem er í slíkum vinnum að fá símtal með stuttum fyrirvara þar sem það þarf að koma og sækja börnin sín,“ segir Sólveig Anna. „Þannig að ég held að á endanum muni þessar breytingar líka koma sér vel fyrir það félagsfólk Eflingar sem starfar á almennum vinnumarkaði.“ Formaðurinn viðurkennir að afstaða hennar mótist af eigin reynslu sem leikskólastarfsmaður, en hins vegar hafi almennir félagsmenn Eflingar ekki sett sig í samband til að mótmæla þessum tillögum Reykjavíkurborgar. Sólveig Anna segir mikilvægt að heyra raddir Eflingarfólks, og það sé gert með samráði við þá 1200 ófaglærðu starfsmenn á leikskólum borgarinnar, með heimsóknum og könnun á vegum Eflingar. Breytingar nauðsynlegar fyrir starfsfólk en ekki síður fyrir öryggi barna Niuvis Sago Suceta, sem hefur starfað á leikskólanum Nóaborg í um tvo áratugi, segir breytingarnar nauðsynlegar, ekki síst barnanna vegna. „Mér finnst að það hefði átt að koma til breytinga fyrir löngu. Það er bara gott að fá þessar tillögur,“ segir Niuvis. „Við þurfum að fá þessar breytingar. Starfsfólksins vegna, barnanna vegna, öryggi þeirra vegna. Við þurfum bara að fá breytingar, það er bara svoleiðis.“ Niuvis segist finna fyrir stuðningi foreldra, því of mikið álag á starfsfólk komi verst niður á börnunum. Þegar starfsfólkinu líði illa, líði börnunum líka illa. Það sé þó skiljanlegt að sumir foreldrar skuli kvíða fyrir, því breytingum fylgi alltaf slíkar tilfinningar.