Ratib Mahmoud Abu Kulayk missti foreldra sína í loftárás Ísraelshers á Gaza. Hann særðist alvarlega og á endanum var annar fóturinn tekinn af honum. Þó að búið sé að semja um vopnahlé á Gaza glíma margir íbúar við afleiðingar tveggja ára af stríðsátökum. Aflimunum fjölgaði mikið eftir því sem Ísraelsher setti aukinn þunga í árásir á þéttbýla staði og íbúðarhús. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Hamas eru aflimanir orðnar rúmlega fjögur þúsund og sjö hundruð, flestar á börnum og eldri borgurum. Ratib var staðráðinn í að leysa vanda sinn og þrátt fyrir að hafa misst fótinn og sársaukann sem því fylgir tókst honum að smíða gervifót úr plaströri.