Ráðherra vill útrýma launaþjófnaði

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, vill útrýma launaþjófnaði með öllu. Hún bindur miklar vonir við niðurstöðu nefndar síðar á þessu ári um að stór skref verði stigin til þess að sporna gegn ólíðandi brotastarfsemi á vinnumarkaði. Kristján Þórður Snæbjarnarson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi forseti ASÍ, ræddi launaþjófnað og brotastarfsemi á vinnumarkaði við félags- og húsnæðismálaráðherra á Alþingi í dag. Hann þekki af fyrri störfum að íslenskur vinnumarkaður sé mjög umfangsmikill og að stefnumörkun í atvinnulífi sé takmörkuð. Í ræðustól spurði hann hvernig ráðherra hygðist tryggja að brot á réttindum launafólks, þar með talinn launaþjófnaður, hafi raunverulegar afleiðingar fyrir atvinnurekendur. Þá spurði hann einnig hvort þörf væri á að styrkja lagaumgjörðina til að sporna gegn skipulögðu vinnumansali og launaþjófnaði. Aðgerðaáætlun fyrir árslok Ráðherra sagði heilbrigðan vinnumarkað vera hornstein íslensks samfélags og það væri allra hagur að sporna gegn launaþjófnaði og slíkri brotastarfsemi. Dæmin sýndu þó annað eins og fram hefði komið í fréttum í málefnum Wok-on og snyrtistofa sem hefði verið áfellisdómur fyrir íslenskt samfélag. Stjórnvöldum bæri skylda að standa vörð um að launafólk væri ekki hlunnfarið. Að störfum væri nefnd ráðherra og aðila vinnumarkaðarins sem ætti að skila af sér aðgerðaáætlun fyrir árslok. Hún vænti þess að nefndin muni stíga stór skref í baráttunni gegn brotastarfsemi. „Ég vænti þess að aðgerðir nefndarinnar muni ná að stíga stór skref, risastór skref í baráttunni gegn brotastarfsemi sem skal þó útrýmt með öllu og okkar allra markmið“ Félags- og húsnæðismálaráðherra segir að sporna verði gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Þingmaður Samfylkingarinnar spurði ráðherra hvernig hún hygðist tryggja að launaþjófnaður hefði raunverulegar afleiðingar fyrir atvinnurekendur.