Segir samfélagið þurfa að taka sameiginlega ákvörðun um notkun gervigreindartóla

Gervigreind hefur á undanförnum árum fleygt fram og er farin að hafa rækileg áhrif á samfélagið. Gervigreindin hefur þróast hratt, nú getur hún talað við fólk, þýtt texta á örskotsstundu og sömuleiðis skrifað fyrir okkur á góðri íslensku. Fjallað var um tækifæri og ógnir gervigreindarinnar á sviði íslenskrar tungu í Kastljósi kvöldsins. „Við þurfum svolítið að ákveða sem samfélag hvernig við viljum nota tólin og hvar við viljum draga mörkin og eiga samtalið þvert á okkur öll, hvernig listamenn sjá þetta og hvernig aðrir sjá þetta,“ segir Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms. Hún segir gervigreindina hafa náð að breyta leiknum og að ákveðnum áfangastað hafi verið náð þ.e.a.s. að íslenskan virki vel á mörgum stöðum eins og í samskiptum við spjallmennið ChatGBT. Hún bendir þó á að þrátt fyrir að íslenskan sé langt komin standi hún höllum fæti í samanburði við önnur stærri tungumál. „En að sama skapi þá erum við ekki í sömu stöðu og tungumál eins og enska eða spænska sem munu sjálfkrafa ná ákveðnum árangri og verða hluti af þessum lausnum á meðan við munum kannski alltaf þurfa að berjast fyrir okkar plássi“. Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar, sem er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar, segir að tækifærin aukist með betri mállíkönum gervigreindarinnar. Þá segir hann að svokölluð spjallmenni verði sífellt öflugri og betri í íslenskunni. „Og það sem meira að þau eru orðin fjöltyngd þannig að ef þú ert Pólverji og býrð í Kópavogi þá getur þú spurt spurninga á pólsku og fengið svar á pólsku, en þau eru unnin upp úr íslenskum gögnum.“ Vilhjálmur segist sjálfur hafa áhyggjur af svokallaðri gervigreindargjá. Þá segir hann að hætta sé á að ekki allir hafi jafnan aðgang að gervigreindinni, það gæti þá orðið til þess að ójöfnuður aukist. „Ég held að við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við endurdreifum þessari tækni og ávinningnum af henni.“ Lilja segist hafa áhyggjur af því hvernig þjálfa eigi kennara í að kenna með gervigreind, hún segir að nauðsynlegt sé að taka umræðuna um gervigreind í skólakerfinu og að það þurfi að gera strax. Kastljóss þáttinn má sjá hér í heild sinni. Gervigreind hefur á undanförnum árum fleygt fram og er farin að hafa rækileg áhrif á samfélagið. í Kastljósi kvöldsins var rætt um áhrif gervigreindar á íslenska tungumálið og hvaða ógnir eða tækifæri þessi aukna þróun getur haft í för með sér.