Bandaríkjaforseti kveðst íhuga aðgerðir gegn glæpagengjum á jörðu niðri

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fordæmir það sem hann kallar tilraun til valdaráns skipulagða af bandarísku leyniþjónustunni CIA. Hann sakar Bandaríkjastjórn einnig um stríðsæsingar á Karíbahafssvæðinu. Maduro lét þessi orð falla skömmu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist íhuga að leggja til atlögu að venesúelskum glæpagengjum á jörðu niðri. „Við erum sannarlega að horfa til aðgerða á landi núna, því við höfum náð góðri stjórn á hafinu,“ sagði Trump á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Hann vildi hins vegar ekki staðfesta sannleiksgildi frétta New York Times um að hann hefði heimilað CIA á laun að leggja til atlögu við stjórn Maduors. „Þetta er fáránleg spurning, eða öllu heldur væri ekki fáránlegt ef ég svaraði henni.“ Bandarísk herskip og herþotur eru í Karíbahafi til að stöðva eiturlyfjasmyglara. Minnst 27 hafa týnt lífi í árásum Bandaríkjahers á smábáta sem Trump segir hafa borið fíkniefnafarma. Engar sönnur hafa þó verið bornar á það og sérfræðingar eru efins um lögmæti slíkra árása á alþjóðlegu hafsvæði enda hafi engin önnur afskipti verið höfð af hinum grunuðu. Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, telur nokkra hinna drepnu vera landa sína. Eftir árásina í gær tilkynnti Maduro aukið viðbragð hersins, lögreglunnar og borgaralegra sveita meðfram ströndum Venesúela og við landamærin að Kólumbíu.