Tæplega sextugur karlmaður, dæmdur fyrir nauðgun og morð, var tekinn af lífi í Mississippi í Bandaríkjunum í gær. Þetta er þriðja aftakan í landinu í vikunni og sú fjórða er fyrirhuguð í Arizona á morgun, föstudag. Hinar voru í Flórída og Missouri. Alls hafa 38 verið tekin af lífi í Bandaríkjunum það sem af er ári, aldrei fleiri síðan árið 2013 þegar aftökurnar voru 39. Þær eru langflestar í Flórída í ár, eða fjórtán, fimm í Texas og Suður-Karólínu og fjórar í Alabama. Flestum, eða 32, hefur verið gefin banvæn sprauta og tveir féllu fyrir kúlum aftökusveitar. Fjórir hafa verið teknir af lífi með beitingu niturgass, sem veldur köfnun. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þá aftökuaðferð sem grimmilega og ómannúðlega. Dauðarefsing hefur verið aflögð í 23 af 50 ríkjum Bandaríkjanna og hún hefur tímabundið verið stöðvuð í þremur til viðbótar. Donald Trump forseti er mjög fylgjandi dauðarefsingu og hvatti á fyrsta degi til fjölgunar aftaka fyrir viðurstyggilegustu glæpina eins og hann orðaði það.