Israel Katz varnarmálaráðherra Ísraels hótar að hefja stríðsaðgerðir aftur á Gaza í samráði við Bandaríkjastjórn virði Hamas-hreyfingin ekki ákvæði vopnahléssamkomulagsins. Kveikja orða Katz er yfirlýsing Hamas-hreyfingarinnar eftir að hún afhenti líkamsleifar tveggja gísla í gær þess efnis að útilokað sé að finna lík fleiri gísla í rústum Gaza án sérhæfðs búnaðar. Þetta yrðu því síðustu líkin sem skilað yrði að sinni. Katz segir að gangi Hamas á bak orða sinna verði gengið milli bols og höfuðs á hreyfingunni og raunveruleika fólks á Gaza breytt í samræmi við markmið stríðsins. Hreyfingin hefur þegar látið af hendi líkamsleifar níu af 28 látnum gíslum ásamt einu líki sem Ísraelsmenn kannast ekkert við og segja ekki vera einn þeirra. „Andspyrnuhreyfingin hefur uppfyllt skilyrði samkomulagsins með því að láta af hendi alla ísraelska fanga sína, ásamt þeim líkum sem hún gat nálgast,“ segir í samfélagsmiðlayfirlýsingu hernaðararmsins Ezzedine Al-Qassam. Allt verði gert til að uppfylla skilyrði samkomulagsins. Háttsettir bandarískir ráðgjafar segjast hafa rætt við Hamas og telja trúlegt að þeir hyggist standa við orð sín. Gíslunum var sleppt í skiptum fyrir næstum tvö þúsund Palestínumenn sem sátu í ísraelskum fangelsum. Viðbúið þykir að frekar verði þrýst innanlands á ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús um að draga úr mannúðaraðstoð á Gaza fái ástvinir ekki líkin í hendurnar. Öryggisráðherrann Itamar Ben Gvir hefur hótað að beita sér fyrir slíku afhendi Hamas ekki líkamsleifar hermanna í haldi þeirra.