Leggjast gegn lækkun hámarksstyrks og styðja breytingar

Öflug og sjálfstæð fjölmiðlun styrkist helst með skynsamlegum útfærslum á endurskoðunaráformum Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra um auglýsingabirtingar í Ríkisútvarpinu. Rekstrarvanda sjálfstæðra fjölmiðla megi rekja til skakkrar stöðu gagnvart því sem nýtur opinberra framlaga og keppir á auglýsingamarkaði. Það sé einsdæmi á Norðurlöndunum sem sé ekki nefnt í samanburði á styrkja- og rekstrarumhverfi fjölmiðla þar. Það gefi villandi mynd. Þetta kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögu um fjölmiðlalögin frá fyrsta minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, miðflokksmannsins Snorra Mássonar og sjálfstæðismönnunum Sigurðar Arnar Hilmarssonar og Jóns Péturs Zimsen. Þingmennirnir þrír telja framgang frumvarpsins í óbreyttri mynd hvorki til þess fallinn að auka sjálfstæði fjölmiðla né möguleika þeirra til að veita valdhöfum aðhald. „Það að gera fjölmiðla fjárhagslega háða hinu opinbera veikir aðhaldshlutverk þeirra, dregur úr óhæði gagnvart stjórnvöldum og eykur freistnivanda þeirra stjórnmálamanna sem vilja hlutast til um fjölmiðlun í landinu.“ Þingmennirnir leggja ákveðið til að hámarksstyrkir verði áfram 25% af heildarframlagi en ekki lækkaðir í 22% eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Sú breyting myndi lækka styrkveitingar til tveggja stærstu fjölmiðlanna, Árvakurs og Sýnar, sem þingmennirnir segja helst geta veitt Ríkisútvarpinu samkeppni og stjórnvöldum aðhald. Skilaboð ríkisstjórnarinnar samkvæmt ákvæðum frumvarpsins virðist vera að óánægja ríki um störf þróttmikilla og gagnrýninna fjölmiðla. „Ellegar er hætt við því að þingið sendi þau skilaboð að fjölmiðlum hefnist fyrir að veita stjórnvöldum aðhald,“ segir í álitinu. Það eigi sérstaklega við vegna umræðna um pólitískan þrýsting á ráðherra málaflokksins.