Dánaraðstoð var lögleidd í Úrúgvæ í gær, sem verður þar með eitt fyrsta ríki Rómönsku Ameríku til þess. Löggjöfin var samþykkt í neðri deild þingsins í ágúst og í gær greiddu 20 af 31 viðstöddum öldungadeildarþingmönnum atkvæði með frumvarpinu. Lögin heimila að aðstoð verði veitt við sjálfsvíg fullorðinna úrúgvæskra ríkisborgara eða annarra þar búsettra sem eru andlega færir til ákvarðanatöku og á lokastigi ólæknandi sjúkdóms sem veldur þeim þjáningum. Þingheimur skiptist á skoðunum í tíu klukkustundir og nokkrir þingmenn sögðu umræðurnar hafa tekið verulega á, enda tilfinningaþrungnar. Kurteisi og virðingar hafi verið gætt í hvívetna þótt fáeinir áhorfendur hafi hrópað „morðingjar“ þegar niðurstaðan lá fyrir. Nokkur ár eru síðan ráðandi breiðfylking vinstri flokkanna, Frente Amplio, lagði til að dánaraðstoð yrði leyfð í Úrúgvæ. Það mætti harðri andstöðu, einkum meðal trúheitra hægrimanna. Nýleg skoðanakönnun sýnir að 60% landsmanna eru fylgjandi dánaraðstoð en 24 af hundraði eru á móti. Þetta litla og tiltölulega fámenna land í Suður-Ameríku á langa sögu af frjálslyndi í löggjafarmálum: marijúananeysla er lögleg og talsvert er síðan samkynja hjónabönd og þungunarrof voru leyfð. Dómstólar í Kólumbíu og Ekvador hafa afglæpavætt dánaraðstoð, án þess að hún hafi verið lögleidd. Dauðveiku fólki á Kúbu er heimilt að afþakka að vera haldið lifandi með fulltingi tækjabúnaðar. Samtök lækna í Úrúgvæ hafa ekki tekið afstöðu til dánaraðstoðar og segja hvern heilbrigðisstarfsmann þurfa að vega og meta út frá eigin samvisku. Kaþólska kirkjan í landinu hefur lýst hryggð vegna ákvörðunar þingsins.