Trump hélt glæsiveislu í þakklætisskyni fyrir framlög til byggingar danssalar

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt í gærkvöld glæsilegt kvöldverðarboð í móttökusal Hvíta hússins til að þakka auðkýfingum og stórfyrirtækjum fyrir þær 250 milljónir dala sem þau leggja til byggingar nýs danssalar við Hvíta húsið. Á gestalistanum voru fulltrúar hátæknifyrirtækja á borð við Amazon, Apple, Meta, Google og Microsoft auk hergagnaframleiðandans Lockheed Martin. Trump hefur sagt byggingu salarins verða eingöngu fjármagnaða með framlögum úr einkageiranum. Þar á meðal eru 22 milljónir sem forsetinn þáði sem sáttabætur frá YouTube í september vegna þess að fyrirtækið lokaði aðgangi hans eftir árásina á þinghúsið í Washington 6. janúar 2021. Trump sagði að þegar húsið verður fullbúið munu þúsund gestir geta safnast saman bak við veggi salarins sem verða úr skotheldu gleri. Þar verði hægt að halda innsetningarathöfn forseta. „Svo mörg ykkar hafa verið óskaplega hreint örlát,“ sagði Trump þegar hann ávarpaði gestina. „Ég meina, sum ykkar hafa spurt mig hvort 25 milljónir séu við hæfi. Ég svaraði auðvitað, já, ég þigg það,“ sagði Trump. Hann dró gluggatjöldin frá í móttökusalnum til að sýna gestum framkvæmdirnar við þessa umfangsmestu viðbyggingu við Hvíta húsið síðustu öldina. Trump sýndi viðstöddum einnig líkan af miklum sigurboga sem reisa á nærri minnismerkinu um Abraham Lincoln forseta í Washington, sem gárungar hafa kallað „Arc de Trump“, og gæti orðið stærri en Sigurboginn í París. „Hann verður afskaplega fallegur,“ sagði Trump.