Þegar sameina á tvö eða fleiri sveitarfélög óttast íbúar í því fámennara oft að missa ákvarðanarétt yfir sínu nærumhverfi. Við sameiningar síðustu ára hefur ýmislegt verið reynt, til að mynda flakkandi stjórnsýsla eða hverfaráð. Við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi árið 2020 var farin ný leið, hver gömlu hreppanna fékk heimastjórn. Alda Marín Kristjánsdóttir, starfsmaður heimastjórnar Borgarfjarðar Eystra, segir heimastjórnir veita íbúum tækifæri til að hafa áhrif í sinni heimabyggð. „Bæði þeim sem sitja í þessum nefndum, en nálægðin gerir almennum íbúum líka meira færi á að eiga í samskiptum við þessa nefnd.“ Hvað er heimastjórn Heimastjórnir eru fastanefndir sveitastjórna, líkt og skipulagsnefnd eða umhverfis- og framkvæmdanefndir. Um verkefni heimastjórna segir á vef Múlaþings: „Heimastjórn getur ályktað um málefni byggðarinnar og þannig komið málum á dagskrá sveitarstjórnar. Helstu verkefni heimastjórna snúa að deiliskipulags- og umhverfismálum, menningarmálum, landbúnaðarmálum og umsögnum um staðbundin málefni og leyfisveitingar.“ Múlaþing var einmitt fyrsta sveitarfélagið sem setti á heimastjórnir við tilurð sveitarfélagsins árið 2020. Kosið er í heimastjórnir og vinna við þær er launuð. Með hverri heimastjórn starfar starfsmaður sem er fulltrúi sveitarstjóra á viðkomandi svæði. Heimastjórnir eru líka við lýði í Vesturbyggð á sunnanverðum Vestfjörðum. Innviðaráðuneyti vildi skoða leiðir til íbúalýðræðis Fjölkjarna sveitarfélög er yfirskrift skýrslu sem Hjalti Jóhannesson og Arnar Þór Jóhannesson unnu á Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri. Það eru sveitarfélög sem orðið hafa til við sameiningu og innihalda því fleiri en einn byggðakjarna. Þeir tóku fyrir aðferðir fjögurra sveitarfélaga til að tryggja íbúasamráð og aðgengi að stjórnsýslunni. Ísafjarðarbær og Norðurþing hafa hverfisráð. Í Múlaþingi eru heimastjórnir en í Fjarðabyggð var upphaflega ákveðið að dreifa stjórnsýslunni milli bæjanna. Síðar var stjórnsýslan sameinuð á Reyðarfirði og íbúum frekar gefinn kostur á að hafa áhrif byggt á hagsmunum, svo sem í ungmenna- eða öldungaráði. Ánægjan mest í Múlaþingi Til að gera langa sögu stutta bendir skýrslan til þess að ánægjan með fyrirkomulag íbúalýðræðis sé einna mest í Múlaþingi. Alda bendir á að heimastjórnir hafi líka sums staðar verið forsenda fyrir því að sameiningin yrði samþykkt. „Heimastjórnirnar eru fastanefndir í sveitarfélagunum,“ segir Alda. „Þær geta ályktað um öll mál sem tengjast því svæði sem er undir hverri heimastjórn sem markast af gömlu sveitarfélagamörkunum.“ Mikið af verkefnum heimastjórnarinnar snýr að skipulagsmálum en þær gera ýmislegt fleira. Þær eru líka náttúruverndarnefndir fyrir sín svæði og fjalla um leyfismál. Einna mikilvægast er þó að þær geta sett málefni frá sínum svæðum á dagskrá sveitarstjórnar. Alda segir: „Sem er kannski munurinn á því að vera með hverfisráð sem er hvorki fastanefnd né skylda sveitarfélagsins að taka fyrir ályktanir þeirra.“ Í skýrsu RHA er þó líka bent á að valdaleysi hverfaráðanna sé engin tilviljun. Sveitarstjórn sé kjörin af sveitarfélaginu öllu og hún eigi að fara með völdin, ekki þrýstihópar af ákveðnum svæðum. Dýrari kosturinn Helsti, eða jafnvel eini ókosturinn sem viðmælendur nefndu varðandi heimastjórnarfyrirkomulagið, segir í skýrslu RHA, er kostnaðurinn. Seta í heimastjórnum er launuð auk þess sem þeim fylgir starfsmaður. Alda segir íbúa viljuga til að taka þátt. Fyrirkomulag kosninga er persónukjör en fólk getur líka gefið kost á sér. „Það var þannig fyrir síðustu kosninga er hér á borgarfirði og, ef ég man rétt, í öllum hinum kjörnunum líka. Ég held að fólki finnist jafnvel dálítið heiður að taka þátt í heimastjórn.“ Þetta er ólíkt sveitarfélögunum sem RHA tók fyrir sem hafa hverfaráð. Þar hefur reynst erfitt að fá fólk til að sitja í hverfaráði og sum þeirra jafnvel ekki starfandi. Íbúar segja sömu sögu og sveitarstjórnarfólk Skýrslan frá RHA var unnin að beiðni innviðaráðuneytisins frá því í vor. Þar segir að helsti annmarki rannsóknarinnar sé að málefnið hafi aðeins verið rætt við sveitarstjórnarfólk og fulltrúa í hverfaráðum og heimastjórnum, ekki íbúa. Það gerði hins vegar Steinunn Ása Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu, fyrir meistararitgerð sína í opinberri stjórnsýslu. Í ritgerðinni tók hún fyrir muninn á íbúalýðræði í tveimur sveitarfélögum, Ísafjarðarbæ og Múlaþingi, og segir helsta muninn á hverfisráði og heimastjórn vera að heimastjórnir hafi formlegra ákvarðanatökuvald en hverfisráðin séu ráðgefandi. Hverfisráðafyrirkomulagið gagnrýnt Hverfisráð Ísafjarðarbæjar hafa verið misvirk. Þar sem ekki hafa verið haldnir aðalfundir að frumkvæði íbúa í einhvern tíma hafa hverfisráðin einfaldlega ekki verið starfandi. Hvað er hverfisráð? Hverfisráð og íbúasamtök eru ekki jafn formlegur vettvangur og heimastjórn. Stundum eru þetta sjálfsprottin grasrótarsamtök en í öðrum tilvikum hefur sveitarfélagið forgöngu um að koma á fót einhvers konar framfara- eða hagsmunasamtökum fyrir ákveðin svæði. Misjafnt er hvort greitt sé fyrir fundarsetu og hversu áhugasamt fólk er að taka þátt. Svörin við könnun Steinunnar benda til þess að fólki finnist mikilvægt að hafa hverfisráð eða einhverja aðra leið til að rödd íbúa berist til sveitarstjórnar en núverandi fyrirkomulag þykir vængbrotið. Steinunn segir: „Almennt er bara ánægja með heimastjórnarfyrirkomulagið í Múlaþingi mun meiri heldur en með hverfisráðafyrirkomulagið í Ísafjarðarbæ.“ Hún segir íbúasamráðið skipta meira máli í minni byggðakjörnum en þeim stærri. Í umræðu um sameiningar er oft meiri mótstaða meðal þeirra sem óttast að glata sjálfstæði og jafnvel sjálfsmynd. Þar geti heimastjórnir skipt sköpum. „Það var allavega einn íbúi í Múlaþingi sem tók fram að þetta fyrirkomulag hefði verið ein af ástæðum þess að hann eða hún samþykkti sameiningu. Þau sögðu að það, þetta heimastjórnarfyrirkomulag, kæmi í veg fyrir að það myndi jaðarsvæði, segir Steinunn. Skortur á íbúasamráði leiðir til óánægju með sameiningar Steinunn segir enn ónánægju til staðar meðal íbúa í smærri byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar þrjátíu árum eftir sameiningu. Á Þingeyri, sem er fjærst stjórnsýslumiðjunni á Ísafirði, er fólk mjög ósátt við þjónustu sveitarfélagsins. Steinunn, sem sjálf býr á Flateyri og hefur átt sæti í hverfaráði þar, segir ljóst að fólk upplifir sig hjásett. „Fólki finnst kannski gjarnan eitthvað gleymast í sínu byggðarlagi, gleymast að huga að viðhaldi mannvirkja og annað slíkt.“ Betra að sleppa samráði en að hlusta ekki á það sem fram kemur Svörin við könnuninni sýna að fólki í Ísafjarðarbæ finnst almennt ekki vera mikið hlustað á það sem kemur frá hverfisráðunum. Fræðin vara einmitt við þessu, það sé ekki skynsamlegt að gefa fólki samráðsvettvang ef það er ekki skýrt í hvaða farveg þeirra skoðanir eigi að fara. „Fólk var bara mjög sárt yfir því að hafa kannski sent sömu hlutina í, í fundargerð aftur og aftur og ekkert gerðist í málinu eða þær fengu jafnvel ekki einu sinni svör.“ Slíkt fyrirkomulag geri fólk þreytt og geti jafnvel orsakað meiri kergju. Steinunn heldur áfram: „Það að gefa fólki samráðsvettvang og rými til þess að koma sínum skoðunum á framfæri, en svo er ítrekað ekki hlustað, þá missir fólk trúna.“ Samráð þurfi að byggjast á sátt Í frumvarpi innviðaráðherra að nýjum sveitarstjórnarlögum sem nú er í samráðsgátt er ráðherra gert kleift að sameina sveitarfélög ef íbúar eru færri en 250. Við það tilefni geta minni sveitarfélögin krafist þess að fá heimastjórn. Steinunn veltir fyrir sér hvort það sé raunhæft að þröngva fram íbúasamráði. „Út frá því sem ég hef kannað held ég að það sé mikilvægt að það sé almenn sátt þegar verið er að koma á svona fyrirkomulagi við sameiningar og það að íbúar í einu byggðalagi geti krafist þess að stofna heimastjórn geti kannski mögulega leitt til áframhaldandi togstreitu.“