Sérfræðingar í þjóðlegu bakkelsi

Það má segja að sumrin í Ögri séu uppfull af matarást. Borðin svigna undan tertum og bakkelsi sem húsfreyjurnar bera fram daglega. Guðfinna, Jóna Símonía og Bjarnþóra hafa fullkomnað bakkelsið sem má kalla þjóðlegt með kaffinu. Allar eru þær sérfróðar um bakstur og eiga blettóttar uppskriftabækur formæðra sinna. „Stundum er deilt,“ segir Jóna Símonía og á við að hver og ein hafi sinn háttinn á með handtökin. Útkoman er ávallt gómsæt og ekki síður falleg fyrir augað. Guðfinna segir rjómann og nokkur lög vera skilyrði á ósviknum hnallþórum: „Hjónabandssæla getur aldrei orðið hnallþóra.“ Í Ögri er fjölbreytt úrval af myndarlegu sveitakaffi með áherslu á það sem er vestfirskt, til dæmis skonsutertan. „Hér er allt gert frá grunni og mikil alúð lögð í veitingarnar,“ segir Jóna Símonía.