Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og athafnamaður, sendir er með nýja skáldsögu fyrir jólin sem nefnist Kvöldsónatan. Ólafur Jóhann býr í Bandaríkjunum en er hér á landi til að kynna bókina, sem kemur út í nóvember, og vera við frumsýningu á nýju leikriti sem hann skrifar og Baltasar Kormákur leikstýrir, Íbúð 10B. Það er frumsýnt á föstudag í Þjóðleikhúsinu. Ólafur Jóhann var gestur Gísla Marteins Baldurssonar og Söndru Barilli í Morgunkaffinu á Rás 2. Þar fór hann yfir það sem á daga hans hefur drifið og það sem framundan er. „Þetta er dúxinn úr MR“ Það má segja að Ólafur Jóhann hafi orðið landsfrægur þegar hann varð dúx frá Menntaskólanum í Reykjavík með hæstu einkunn sem gefin hafði verið. Skömmu síðar sendi hann frá sér smásagnasafnið Níu lykla sem vakti mikla athygli. „Þetta hefur aldrei truflað mig, ég hef ekki hagað mér öðruvísi og það er ekki eins og fólk abbist upp á mann,“ segir hann um frægðina á Íslandi. Þó hafi verið forvitnilegt að hafa þennan dúx-stimpil úr menntaskóla. Hann kynntist Önnu Ólafsdóttur eiginkonu sinni ári eftir útskrift í Vesturbæjarlauginni. Þau þekktust lítillega og spjölluðu aðeins saman. Þegar hún kvaddi Ólaf og settist hjá vinum sínum í heita pottinum spurðu vinkonur hennar: „Veistu við hvern þú varst að tala?“ Anna sagðist kannast við hann, þau hefðu hist nokkrum sinnum. Vinkonurnar bættu við: „Þetta er dúxinn úr MR.“ Anna leit á þær skeptísk og svaraði: „Hann? Það getur ekki verið.“ Ólafur rifjar þetta upp og hlær. „Þetta var sumarið 1983, ég í sumarfríi. Henni fannst ég ekki líklegur til að hafa dúxað mikið miðað við þær samræður sem við höfðum átt. Við höfum verið saman síðan, eigum þrjú börn.“ „Sumir eru í stanslausu áfalli“ Börn Ólafs og Önnu hafa búið í New York mestalla tíð en líta á sig sem Íslendinga og tala saman á íslensku. Ólafur segir að þau myndu ekki taka í mál að vera kölluð Bandaríkjamenn en það gera heldur ekki allir vinir þeirra í borginni. „Sem New York-ari ertu heldur ekki Bandaríkjamaður, þannig, því það er sér batterí.“ Þau búa í kalksteinshúsi með mikilli lofthæð á Carnegie Hill. Guggenheimsafnið er rétt hjá og Metropolitan en túristarnir rata sjaldan í götuna þeirra. Umhverfið er huggulegt og lífið gott en stemningin í New York hefur súrnað nokkuð síðustu ár, ekki síst í valdatíð Donalds Trumps enda eru margir Demókratar í borginni. Ólafur Jóhann segir mjög misjafnt hvernig vinir hans taka breyttu landslagi. „Það er mjög misjafnt. Sumir eru í stanslausu áfalli,“ segir hann. En vinir hans eru ekki heldur allir sammála um allt. „Ég á vini úr öllum áttum og myndi ekki þrífast vel í bergmálshelli. Sumir styðja stjórnvöld núna af ýmsum ástæðum. Það getur verið pólitík fyrir Mið-Austurlöndum, það geta verið skattarnir, margt sem fólki þykir skipta meira máli en annað. en yfirleitt er þetta þannig að það eru fleiri ósáttir en sáttir.“ Svo sé það ekki alltaf besta ákvörðunin að leggjast í rúmið. „Svo er spurning ætlarðu að liggja í þunglyndi í fjögur ár og vakna hvern morgun og rjúka í uppþot þess dags, því það er alltaf eitthvað nýtt. Ætlarðu að láta það stjórna lífi þínu?“ spyr hann og bætir við: „En þetta er mjög sérstakt.“ „Helvítis ég hef engan tíma til að gera þetta“ Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri hefur hnippt nokkuð reglulega í Ólaf og spurt hvort hann sé ekki með hugmynd að leikriti. Ólafur svaraði því neitandi þar til hann fékk hugmyndina að Íbúð 10B. Leikritið gerist í huggulegu fjölbýlishúsi við höfnina. Húsfélagið heldur kvöldfund þar sem stjórnin hittist til að fara yfir málin en þau eiga afar erfitt með að vera sammála. Einn íbúðareigandinn í húsinu ákveður að lána íbúðina sína tuttugu hælisleitendum sem bíða afgreiðslu mála sinna. Ekki eru allir ánægðir með þá ákvörðun. Eftir að hafa sett punkt við lokasenuna hafði hann samband við Baltasar Kormák sem leikstýrði kvikmyndinni Snertingu eftir samnefndri bók Ólafs. Baltasar var í Ástralíu að undirbúa tökur á stórmynd fyrir Netflix og Ólafur spurði hvort hann vildi kannski lesa. „Svo hringir hann og segir: Helvítis ég hef engan tíma til að gera þetta.“ Hann fann samt tíma og leikstýrði verkinu sem er fumsýnt á föstudag. „En þetta greip hann og þannig kom þetta til.“ Og sem fyrr segir er nóg um að vera hjá höfundinum. Skáldsagan Kvöldsónatan kemur út í byrjun nóvember og aðdáendur bíða spenntir. Ólafur Jóhann segist hafa fengið hugmyndina að henni fyrir um þremur árum. „Mig langaði að skrifa um píanóleikara og þessa fléttu sem hafði setið í mér.“ Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og athafnamaður, kynntist Önnu Ólafsdóttur eiginkonu sinni í heitum potti. Hann var þekktur fyrir að hafa dúxað með hæstu meðaleinkunn sem gefin hafði verið í MR ári fyrr en Anna kannaðist ekki við hann.