Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði í gær kröfu innflutnings- og verslunarfyrirtækisins Ormsson um að felld yrði úr gildi synjun Reykjavíkurborgar á því að gefa út byggingarleyfi vegna stórs ljósaskiltis á einum vegg hússins. Fyrirtækið hafði sett skiltið upp þar sem áður var flettiskilti og byrjað að birta auglýsingar án þess að fá útgefið byggingarleyfi. Borgin ákvað síðar að leggja dagsektir á fyrirtækið ef ekki yrði slökkt á skiltinu og neitaði að gefa út byggingarleyfi. Þetta sættu stjórnendur fyrirtækisins sig ekki við og kærðu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hún synjaði kröfu fyrirtækisins. Þá fór deilan fyrir dóm sem kvað í gær upp úr um að borgin og úrskurðarnefndin hefðu farið rétt að. Ljósaskiltið vísar út að gatnamótum Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar. Þar ætlaði fyrirtækið að kynna vörur sínar og starfsemi fyrir hugsanlegum viðskiptavinum. Íbúar í grenndinni kvörtuðu undan stærð skiltisins og birtu frá því. Dómari sagði að ekki léki vafi á því að uppsetning ljósaskiltis væri háð byggingarleyfi en að fyrirtækið hefði sett það upp án þess að sækja um leyfi og farið að birta auglýsinga- og kynningarefni. Ormsson var áður með flettiskilti á sama vegg og ljósaskiltið. Í dóminum segir að það hafi verið um þriðjungur af stærð nýja stafræna skiltisins og því sé strax hægt að fullyrða að skiltin séu ekki sambærileg. Einnig sé munur á birtingarmöguleikum flettiskiltisins, dúkskiltis sem leysti það af hólmi og ljósaskiltisins slíkur að það orkaði mjög tvímælis að þau gætu talist sambærileg. Dómarinn sagði að hvort sem miðað væri við mælingar borgarinnar eða fyrirtækisins væri ljóst að skiltið væri nær afrein á Háaleitisbraut en kveðið sé á um í reglum. Hann sagði engin málefnaleg rök standa til þess málatilbúnaðar Ormsson að afreinin væri á einhvern hátt undanskilin þegar fjarlægð skiltisins frá umferðarmannvirkjum væri mæld. Fyrirtækið sagðist í fullum rétti þar sem byggingarfulltrúi hefði samþykkt umsókn þess um byggingarleyfi. Þar byggði félagið á því að fyrir mistök stóð í efnisheiti tölvupósts að umsóknin hefði verið samþykkt, þó að annað kæmi fram í sjálfu bréfinu. Aðeins hafði verið samþykkt að fresta því að leggja dagsektir á fyrirtækið. Þetta var leiðrétt með bréfi næsta dag. Dómari sagði að þetta væri augljós villa og engum blöðum um það að fletta að stjórnendum fyrirtækisins mætti vera ljóst af innbyrðis ósamræmi milli fyrirsagnar og texta bréfsins að þarna væri ekki búið að samþykkja umsókn um byggingaleyfi. Að auki hefði þetta strax verið leiðrétt. Málatilbúnaði Ormsson um að borgin og/eða úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefðu brotið gegn skráðum sem óskráðum málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulaga var hafnað. Auk þess hafnaði nefndin því að það hefði áhrif ef skilti annarra stönguðust mögulega á við reglur og lög. „Böl verður ekki bætt með því að benda á eitthvað annað,“ sagði dómari. Dómari fann einnig að uppsetningu stefnunnar, sagði að hún væri úr hófi löng og þar bæri nokkuð rammt að endurtekningum. Hann sagði að vegna þessa og annarra atriða í stefnu hefðu varnir borgarinnar orðið yfirgripsmeiri en efni stæði til. Það hefði þó ekki komið þannig að sök að ekki væri hægt að dæma í málinu.