Ísraelsk stjórnvöld segja að áður en opnað verður fyrir flutninga um Rafah, milli Gaza og Egyptalands, þurfi Ísraelar og Egyptar fyrst að klára nauðsynlegan undirbúning. Þetta kemur fram í tilkynningu frá varnarmálastofnun Ísraels, sem hefur umsjón með borgaralegum málefnum á palestínsku yfirráðasvæði. Áhersla er lögð á að ekki hafi verið samið um flutninga um þessa leið í samkomulaginu um vopnahlé. Hjálpargögn haldi áfram að berast inn á Gaza eftir öðrum vegum frá Ísrael, í samræmi við samkomulag um vopnahlé. Leiðin um Rafah hefur að mestu verið lokuð frá því átök brutust út eftir 7. október 2023. Sameinuðu þjóðirnar kröfðust þess í morgun að Ísraelar opni fleiri leiðir inn á Gaza til þess að hægt sé að flytja þangað hjálpargögn í stórum stíl. Hótar stríðsaðgerðum ef Hamas virðir ekki samkomulag Israels Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, hótar að hefja stríðsaðgerðir aftur á Gaza í samráði við Bandaríkjastjórn, virði Hamas-hreyfingin ekki ákvæði vopnahléssamkomulagsins. Kveikja orða Katz er yfirlýsing Hamas um að útilokað sé að finna lík fleiri gísla í rústum Gaza án sérhæfðs búnaðar. Katz segir að gangi Hamas á bak orða sinna verði gengið milli bols og höfuðs á hreyfingunni og raunveruleika fólks á Gaza breytt í samræmi við markmið stríðsins. Hreyfingin hefur þegar látið af hendi líkamsleifar níu gísla ásamt einu líki sem Ísraelsmenn segja ekki vera einn hinna látnu gísla.