Ríkið sýknað af bótakröfu vegna vanrækslu við greiningu á HIV

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af bótakröfu manns sem höfðaði mál vegna vanrækslu við meðferð og greiningu á HIV-smiti. Hann sagði heilbrigðisstarfsmenn hafa vanrækt að skima fyrir HIV-smiti. Maðurinn höfðaði mál gegn Sjúkratryggingum Íslands í janúar. Hann krafðist viðurkenningar á því að íslenska ríkið bæri bótaábyrgð og að Sjúkratryggingar yrðu dæmdar bótaskyldar. Hann fór endurtekið á heilbrigðisstofnanir árin 2012 til 2017 vegna ýmissa kvilla og meiðsla. Almennt hlaut maðurinn skoðun og eftir atvikum meðferð en var annars almennt talinn heilsuhraustur af heilbrigðisstarfsfólki. Árið 2012 óskaði læknir eftir blóðrannsókn sem maðurinn mætti ekki í en ekki liggur fyrir hvort sú rannsókn hefði gefið svar um HIV-smit eða gefið tilefni til frekari rannsókna, að því er fram kemur í málsgögnum. Árið 2016 leitaði maðurinn á heilsugæslu vegna verks yfir brjóstkassann sem leiddi um mánuði síðar til rannsókna, meðal annars vegna gruns um HIV-smit, og kom þá í ljós að hann var HIV-smitaður. Krafa um bætur frá SÍ fyrnd Maðurinn sendi kvörtun til embættis landlæknis árið 2020 vegna vanrækslu við veitingu þjónustu á fyrrgreindu tímabili. Hann sótti um bætur sama ár til Sjúkratrygginga og var henni hafnað snemma 2021 þar sem krafan væri fyrnd. Hann höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í janúar og hélt því fram að hann hefði hvorki á Landspítala né á öðrum heilbrigðisstofnunum fengið viðeigandi skoðun, eftirfylgni eða réttar greiningar. Heilbrigðisstarfsmenn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að vanrækja að skima fyrir hugsanlegu HIV-smiti í ljósi einkenna hans. Maðurinn sagðist hafa verið að glíma við nær öll einkenni HIV-smits á umræddum tíma og verið í áhættuhópi fyrir smiti. Hann vildi meina að afleiðingar smitsins hefðu ekki orðið jafn skelfilegar, meðferð auðveldari og batahorfur betri hefði HIV-smitið uppgötvast fyrr. Í dómi héraðsdóms segir afar ótrúverðugt að hann hafi ekki vitað eða mátt vita um sjúkdómsgreininguna þann 20. október 2016. Hann hafi ekki sýnt fram á að heilbrigðisstarfsmenn hefðu sýnt af sér saknæma hegðun við skoðun og greiningu á HIV-smiti, sem hafi valdið því að hann er kominn með alnæmi.