Hrökklast úr stjórnmálum vegna hatursorðræðu

Anna-Karin Hatt, leiðtogi Centerpartiet í Svíþjóð, hættir eftir einungis fimm mánuði vegna hatursorðræðu og hótana. Hún segist ekki geta unað við að finnast hún sífellt þurfa að horfa yfir öxlina, upplifa óöryggi og finnast hún ekki örugg, jafnvel ekki á eigin heimili. Afsögnin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti Hatt tilkynnti afsögn sína á fundi með fréttamönnum og hún kom mjög á óvart sagði Elisabeth Marmorsten, fréttaskýrandi sænska ríkisútvarpsins. Miðflokkurinn hefði ætlað að kynna stefnu sína, hætt hefði verið við þann fund og afsögnin tilkynnt í staðinn. Anna-Karin Hatt tók þátt í leiðtogaumræðum í sænska ríkissjónvarpinu 12. október. Þar gerði hún hörkuna í pólitískri umræðu að umtalsefni. Ekki neinn einstakur atburður olli afsögninni Anna-Karin Hatt segir að það hafi ekki verið neinn einstakur viðburður sem fékk hana til að ákveða að hætta heldur uppsöfnuð reynsla. Hún vildi ekki ræða nánar hótanir og hatursumræðu sem hefði beinst gegn sér. Hún vildi ekki búa við hatur og hótanir. „Ég get með sanni sagt að samfélagsumræðan, hatrið og hótanirnar eru verri núna en fyrir tíu árum þegar ég var síðast aktív í pólitík, en í sannleika sagt gerði ég mér ekki grein fyrir hversu hatrammt þetta væri orðið né hvaða áhrif þetta myndi hafa á mig.“ Margir lýst hryggð og áhyggjum Margir hafa orðið til þess að taka undir með Önnu-Karin Hatt að hatur og hótanir hafi færst í vöxt, einkum og sér í lagi á samfélagsmiðlum. Þá hafa sumir rifjað upp að tveir stjórnmálaleiðtogar í landinu voru myrtir, Olof Palme, forsætisráðherra, 1986 og Anna Lindh, utanríkisráðherra, 2003. Valdarán á Madagaskar Andry Rajoelina, forseti sem sjálfur rændi völdum 2009, flúði landið um helgina, eftir mótmælaöldu. Rajoelina var við völd frá 2009-2013 þegar hann sagði af sér en komst aftur til valda í kosningum 2018. Óánægja með stjórn hans hefur vaxið mjög og mótmæli hófust gegn stjórn hans. Mótmælendur voru ungt fólk sem kennir sig við Z-kynslóðina og kröfðust þess að forsetinn segði af sér. Þeim var mætt af hörku og urðu blóðug þegar til átaka kom í höfuðborginni Antananarivo seint í september og að minnsta kosti 22 biðu bana. Þáttaskil urðu í valdabaráttunni þegar úrvalssveit í hernum sem kallast CAPSAT gekk til liðs við mótmælendur fyrir síðustu helgi. CAPSAT-sveitin kom Rajoelina til valda 2009. Ofursti tekur sér forsetavald Eftir að forsetinn flúði land setti öldungadeild þingsins hann formlega af og þá átti forseti deildarinnar að taka við völdum til bráðabirgða, en Michael Randrianirina, foringi CAPSAT-sveitarinnar, lýsti því yfir að hann tæki sér forsetavald. Stjórnarskrárdómstóll landsins staðfesti valdaránið með því að lýsa yfir að Randrianirina væri réttur forseti. Dómstóllinn hefur verið sendur í frí ásamt fleiri dómstólum og kosningaeftirliti. Hér má heyra Heimsglugga vikunnar Anna-Karin Hatt, leiðtogi Miðflokksins (Centerpartiet) í Svíþjóð, hættir eftir einungis fimm mánuði í embætti vegna hótana, hótana og skelfilegrar orðræðu. Afsögn hennar var til umræðu í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1.