Tilkynning Icelandair í gær um að afkoma fyrirtækisins í sumar yrði undir væntingum leiddi til þess að verð hlutabréfa í fyrirtækinu lækkaði um tíu prósent í morgun. Icelandair greindi frá því í gær að vonir um aukna arðsemi á þriðja ársfjórðungi hefðu ekki gengið eftir. Tekjur jukust milli ára í takt við áætlanir en kostnaður varð meiri en fyrirtækið sá fyrir. Í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær var sú kostnaðaraukning einkum rekin til sterks gengis krónunnar sem leiddi til hærri launakostnaðar en ella. Eldsneytiskostnaður varð einnig meiri en stjórnendur félagsins gerðu ráð fyrir, þar með talið vegna uppgjörs á ETS kolefniseiningum, og flugfélagið þurfti óvænt að leigja flugvél í ágúst vegna bilunar í annarri flugvél. Í tilkynningu félagsins sagði að sjóðsstaða félagsins hefði verið mjög sterk í lok september. Þar kom einnig fram að miðað við núverandi horfur verði EBIT-afkoma fyrirtækisins neikvæð um tíu til tuttugu milljónir dollara í ár.