Formaður Leigjendasamtakanna segir þurfa beina íhlutun stjórnvalda til þess að bæta aðstæður leigjenda, ekki síst vegna þess að fjöldi leigjenda hér á landi hafi verið vanmetinn. Áhugaleysi og skilningsleysi ríki um málefni leigjenda. Samningsstaða þeirra sé veik og löggjöf sem verndi þá sé meðal þeirra verstu meðal OECD-ríkja. „Auðvitað eiga stjórnmálamenn að koma þarna inn því þessu verður ekki breytt öðruvísi en með einhverri íhlutun stjórnvalda. Markaðurinn er ekki að fara að breyta þessu vegna þess að við sjáum bara enn þá á þróun á eignarhaldi og húsnæði að þetta eru að stærstum hluta fjárfestar,“ sagði Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, í Morgunútvarpinu á Rás 2. Aðeins hluti hugsanlegra fasteignakaupenda komist í gegnum greiðslumat og fasteignir safnist á hendur fárra. „Þetta er örlítill hluti af hugsanlegum kaupendum sem eru í stöðu til að fara inn á fasteignasölurnar og kaupa sér fasteignir, og það er fyrst og fremst fólk sem á fasteignir fyrir. Þannig að þessar íbúðir eru að fara að enda á leigumarkaðinum og tangarhald þessara fjárfesta og eignarfólks á leigjendum er bara að aukast, og það mun bara aukast nema með íhlutun stjórnvalda.“ Líta þurfi á þróun leigumarkaðarins sem félagslegt verkefni en ekki aðeins hagnaðardrifinn markað. Ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á því að skapa jafnræði á húsnæðismarkaði.