Þó að kýrin Birna 2309 hafi áður borið kálfi og eigi eftir að gera það aftur verður sá burður vart jafn sögulegur og þegar hún bar kálfinum Birni undir kvöld í gær. Sá er fyrsti kálfurinn sem fæðist á Íslandi eftir sæðingu með kyngreindu sæði. Í ár hafa verið tilraunir gerðar með kyngreiningu sæðis úr nautum svo hægt sé að velja kyn kálfa fyrir fram. Afraksturinn leit dagsins ljós í gær. Jóhannes Kristjánsson er bústjóri Hvanneyrarbúsins. Hann segir að með kyngreiningu sæðis sé hægt að láta bestu kýrnar fá sæði sem gefur kvígur sem nýtast vel til mjólkurframleiðslu og hægt er að gefa verri kvígum sæði með holdanautum sem gefa af sér holdablendinga. Þeir eru yfirleitt karlkyns og eru betri til kjötframleiðslu. „Við erum með íslenska mjólkurkynið, það er aðallega ræktað til mjólkurframleiðslu. Ræktunarmarkmiðin eru sett þannig fram að við erum að reyna að búa til betri mjólkurkýr. Þess vegna er mikill hagur að undan bestu kúnum okkar komi kvígur sem verði þá áfram ný kynslóð mjólkurkúa.“ „Íslensk naut af þessu kyni eru ekkert frábær til kjötframleiðslu. Það er miklu hagkvæmara fyrir bændur að nýta holdakyn til þess sem hefur meiri vaxtarhraða, meiri vaxtargetu og meiri vöðvamassa á slíku kyni.“ Nautkálfurinn Björn er blendingur af Aberdeen Angus kyni.