Samningar náðust á milli Ljóssins og Sjúkratrygginga

Samningar hafa náðst á milli Sjúkratrygginga Íslands og Ljóssins, endurhæfingarmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda. Þetta kom fram í svari Ölmu Möller, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma í upphafi þingfundar. Alma segir ekki útilokað að Ljósinu verði veitt viðbótarfjármagn. Guðrún sagði það vera pólitíska ákvörðun hjá ríkisstjórninni að lækka framlög til Ljóssins um 200 milljónir. „Meira verður skilningsleysið á kjarna velferðar ekki,“ sagði hún. „Þegar kemur að Ljósinu er hægt að segja frá því að nú hafa loks náðst samningar milli Sjúkratrygginga og Ljóssins fyrir þetta ár og þá er auðvitað hægt að halda áfram til næsta,“ svaraði Alma. Hún bætti því við að sér þætti ekki boðlegur málflutningur að halda því fram að verið væri að skerða fjárframlög til Ljóssins þar sem félaginu var veitt 195 milljóna fjárveiting frá fjárlaganefnd í fyrra.