Sebastien Lecornu, forsætisráðherra Frakklands, stóð af sér tvær vantraust tillögur í franska þinginu í morgun. Helstu andstæðingar Frakkandsforseta, vinstri flokkurinn La France Insoumise og hægri flokkurinn Þjóðfylkingin undir forsæti Marine Le Pen og bandamenn hennar lögðu vantraust fram í morgun. Hækkun eftirlaunaaldurs frestað Lecornu ákvað á þriðjudag að fresta umdeildum breytingum á eftirlaunalöggjöf og reyna þannig að halda lífi í ríkisstjórnarsamstarfinu nógu lengi til þess að ná fjárlagafrumvarpinu í gegnum þingið fyrir árslok. Sósíalistaflokkurinn hafði hótað því að lýsa yfir vantrausti á forsætisráðherrann ef hann stöðvaði ekki hækkun eftirlaunaaldurs úr 62 árum í 64. Án stuðnings Sósíalista náði vantraust tillagan ekki fram að ganga. Laurent Baumel, þingmaður Sósíalista, sagði í morgun að þótt forsætisráðherranum hefði verið hlíft við vantrausti í dag þýði það ekki að samkomulag hafi náðst til framtíðar. Hann hvetur til þess að frekari tilslakanir verði gerðar í umræðum um fjárlögin. Fjárlögin hitamál í Frakklandi Evrópusambandið hefur þrýst á Frakkland að draga úr halla á ríkissjóði og lækka skuldir ríkisins. Þar er mjög á brattan að sækja því deilur um niðurskurðaraðgerðir hafa þegar orðið til þess að tveir forverar Lecornu hrökkluðust úr embætti. Sjálfur sagði hann af sér á mánudaginn var en forseti Frakklands náði að sannfæra hann um að gera aðra tilraun til þess að koma fjárlögum gegnum þingið. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar dregur úr nauðsyn þess að Emmanuel Macron, forseti Frakklands, þurfi aftur að rjúfa þing og boða til kosninga. Sú ferð var ekki til fjár þegar hann gerði það síðast í júlí í fyrra því kosningarnar leiddu af sér klofið þing. „Komum okkur að verki,“ sagði Lecornu við blaðamenn þegar hann yfirgaf þinghúsið í morgun. Viðræður þurfi að hefjast um fjárlagafrumvarp næsta árs.